„Við gerðum mistök og biðjumst afsökunar. Ámælisverðir viðskiptahættir fengu að viðgangast í starfsemi útgerðar Samherja í Namibíu.“ Svona hefst yfirlýsing frá Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Mikill styr hefur verið um Samherja frá því umfjöllun Kveiks og Stundarinnar um starfsemi fyrirtækisins í Namibíu var birt í nóvember 2019. Málið er nú til rannsóknar hjá héraðssaksóknara sem og hjá saksóknurum í Namibíu.

Veikleikar og lausatök í stjórnskipulagi

Samherji hefur haldið því fram, bæði í yfirlýsingum hér á landi og fyrir dómi í Namibíu, að meint mútustarfi og peningaþvætti hafi verið að undirlagi Jóhannesar Stefánssonar, uppljóstrara og fyrrverandi framkvæmdastjóra Samherja í Namibíu. Ekki virðist vera neinn viðsnúningur í því í yfirlýsingu Þorsteins Más. „Veikleikar voru í stjórnskipulagi og lausatök sem áttu ekki að líðast. Við brugðumst ekki við eins og okkur bar.“

Þorsteinn Már biðst afsökunar. „Þetta hefur valdið uppnámi hjá starfsfólki okkar, fjölskyldum, vinum, samstarfsaðilum, viðskiptavinum og víða í samfélaginu. Við hörmum þetta og biðjumst einlæglega afsökunar,“ segir í yfirlýsingu Þorsteins. „Það geri ég persónulega sem forstjóri og einnig fyrir hönd félagsins sem ætíð hefur haft vönduð vinnubrögð að leiðarljósi í allri sinni starfsemi.“

Vill draga lærdóm af mistökunum

Samherji hefur ekki viljað veita Kveik eða Stundinni viðtal vegna málsins. Þá hefur fyrirtækið ekki birt skýrslu sem það fékk norsku lögmannsstofuna Wikborg Rein til að gera um starfsemina í Namibíu. Samherji birti yfirlýsingu í lok maí síðastliðnum í kjölfar umfjöllunar Stundarinnar og Kjarnansum svokallaða „skæruliðadeild“ fyrirtækisins þar sem beðist var afsökunar á framgöngu sinni. Sú yfirlýsing hefur þó verið gagnrýnd, þar á meðal af varafréttastjóra RÚV sem gerði athugasemdir við hana í þremur liðum.

Þorsteinn Már segir í yfirlýsingunni í dag að gripið hafi verið til ráðstafana til að koma í veg fyrir það sem hafi átt sér stað í Namibíu endurtaki sig. „Við viljum ekki láta við það sitja að biðjast afsökunar heldur draga lærdóm af þessum mistökum og tryggja að ekkert slíkt gerist aftur. Í því skyni höfum við gripið til viðamikilla ráðstafana.“

Vill hann að horft verði fram á veginn. „Mistök okkar í Namibíu eru ekki síst okkur sjálfum mikil vonbrigði. Við munum ekki láta slíkt henda aftur.“

Samherji hefur svo gefið út að ítarlegri yfirlýsingu sé að vænta á heimasíðu fyrirtækisins.