Landsréttur hefur staðfest dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum Samherja hf. og Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra fyrirtækisins gegn Seðlabanka Íslands.

Hefur Seðlabankinn þannig verið sýknaður af 115 milljóna skaðabótakröfu fyrirtækisins en bankinn hins vegar dæmdur til að greiða Þorsteini Má tæpar tvær og hálfa milljón í skaðabætur og 200 þúsund krónur í miskabætur. Auk þess er Seðlabankanum gert að greiða Þorsteini Má 3 milljónir í málskostnað vegna meðferðar málsins fyrir héraðsdómi og Landsrétti.

Landsréttur taldi með vísan til niðurstöðu Hæstaréttar, að saknæmisskilyrði fyrir skaðabótakröfu Þorsteins væri uppfyllt þar sem miklir annmarkar hefðu verið á afgreiðslu málsins hjá starfsfólki Seðlabankans. Þá væri útlagður kostnaður Þorsteins við að gæta hagsmuna sinna í málinu afleiðing af hinni ólögmætu málsmeðferð Seðlabankans og bankinn því skaðabótaskyldur gagnvart Þorsteini.

Ólögmæt meingerð gegn Þorsteini

Tíu milljóna miskabótakrafa Þorsteins Más laut að brotum Seðlabankans við rannsóknina. Þau vörðuðu meðal annars húsleit sem gerð var í húsakynnum Samherja og frétta RÚV af henni, en Samherjamenn töldu forsvarsmenn bankans hafa upplýst fréttamenn RÚV um húsleitina áður en hún fór fram.

Að lokum telur Landsréttur álagningu stjórnvaldssektar hafa falið í sér ólögmæta meingerð gegn Þorsteini og fyrir það beri að greiða honum miskabætur.

Seðlabankinn var hins vegar sýknaður af kröfum Samherja, sem fyrr segir en hluta af kröfum þeirra var vísað frá dómi vegna vanreifunar.

Samerji krafðist upphaflega 290 milljóna í bætur frá Seðlabankanum vegna meints fjártjóns sem hlaust af rannsókn bankans á því hvort Samherji og Þorsteinn Már höfðu staðið við skilaskyldu eftir hrun.

Fyrir Landsrétti var skaðabótakrafa Samherja lækkuð niður í 115 milljónir.

Stjórnvaldssekt sem bankinn lagði á fyrirtækið og forstjóra þess var felld niður með hæstaréttadómi, en eftir það kröfðust Samherji og Þorsteinn Már bóta úr höndum Seðlabankans.

Töldu Samherjamenn bankann hafa hafa gengið alltof langt í að sækja málið þrátt fyrir að hafa fengið ábendingar um að lagaheimild fyrir aðgerðunum væri ekki til staðar.