Þorsteinn V. Einarsson, sem heldur úti samfélagsmiðlunum Karlmennskan, þar sem leitast er við að varpa ljósi á birtingarmyndir karlmennskuhugmynda, leitar nú að karlmönnum sem hafa nauðgað eða beitt aðra manneskju kynferðislegu ofbeldi. Markmiðið er að fá innsýn í upplifun þeirra og reynslu fyrir þátt um karlmennsku sem er nú á undirbúningsstigi.
Á Facebook síðunni er tekið fram að þeir sem vilji deila reynslu sinni þurfi ekki að koma fram í þættinum. Þá verði atriði sem kunna að bera kennsl á geranda eða þolanda afmáð úr frásögninni. Fyrst um sinn sé leitast eftir óformlegu spjalli við menn sem hafi beitt ofbeldi, hvort sem það var af ásettu ráði eða ekki.
„Mér datt í hug að kanna hvort að einhverjir menn væru tilbúnir til þess að tala við mig,“ segir Þorsteinn í samtali við Fréttablaðið. Hann leggur áherslu á að hann sé ekki að gera rannsókn heldur sé hann að forvitnast, hann sé í hugmyndavinnu fyrir viðkomandi þætti um karlmennskuna sem séu á handritsstigi.
„Þess vegna langaði mig að kanna hvað myndi gerast. Ég er ekki að fara ð gera rannsókn, ég bara er í raun að forvitnast og mig langar að fjalla um þessa skrímslavæðingu. Af því að það er rosalega mikið talað um þolendur, sem stíga fram og skila skömminni en það er eins og það séu ekki gerendur, sem mér þykir svo áhugavert,“ segir Þorsteinn. Hann segir alla vinnuna á frumstigi, hann sé meðvitaður um rannsóknir á málinu þar sem verið sé að skoða nauðgunarmenningu.
„En ég var í raun bara að henda þessu fram í smá forvitni og athuga hvaða viðbrögð ég fengi. Þetta er nú ekki meira úthugsað en það,“ segir Þorsteinn.