Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins, segir forsendur kjarasamninga brostnar. Hann segir í grein í Fréttablaðinu í dag að atvinnulífið ráði ekki við þær launahækkanir sem samið hefur verið um vegna Covid-kreppunnar.

Innistæðulausar launahækkanir nú muni aðeins auka atvinnuleysi og verðbólgu. Þá segir hann það áhyggjuefni að við þessar kringumstæður virðist forysta verkalýðshreyfingarinnar ætla að stinga höfðinu í sandinn.

„Þetta er ekki „grímu­laus hræðslu­á­róður auð­valdsins“ líkt og gjarnan er haldið fram í til­finninga­þrunginni orð­ræðu nýrrar for­ystu ASÍ. Þetta eru ein­faldar efna­hags­legar stað­reyndir. Stað­reyndir sem viður­kenndar eru af verka­lýðs­hreyfingu á öllum Norður­löndunum nema hér. Stað­reyndir sem við höfum í­trekað sann­reynt hér á landi,“ segir Þorsteinn.

„Verði ekki brugðist við þessari þróun með endur­skoðun samninga er ljóst að upp­sagnir fyrir­tækja verða meiri en þegar er raunin og hætt er við að verð­bólga verði að sama skapi hærri en ella.“

Þorsteinn segir að glíma þurfi við djúpa og alvarlega kreppu sem muni vafalaust fylgja þangað til COVID-19 faraldurinn hefur gengið yfir. „Inni­stæðu­lausar launa­hækkanir nú munu að­eins auka at­vinnu­leysi og verð­bólgu. Það þarf að leita annarra leiða. Gott sam­starf á vinnu­markaði hefur ekki verið mikil­vægara um ára­bil. Það er á­hyggju­efni að við þessar kring­um­stæður virðist for­ysta verka­lýðs­hreyfingarinnar ætla að stinga höfðinu í sandinn.“