„Ég held að það megi búast við breytingum á fiskveiðistofnum umhverfis Ísland, fækkun tegunda, til dæmis þorsks sem vill vera í köldu vatni, og aukningu tegunda sem lifa í hlýrra vatni, til dæmis gæti makríll aukist eða sardínur,“ segir Katherine Richardson, prófessor í haffræði við Kaupmannahafnarháskóla og stjórnandi ROCS.

Nýjar rannsóknir sýna að áður óþekktar breytingar eiga sér nú stað í hafinu umhverfis Ísland. Katherine tekur fram að forsendur skorti til að alhæfa um hvernig breytingar á umhverfi hafi áhrif á fiskistofna.

ROCS stendur fyrir rannsóknasetur Margrétar Danadrottningar og Vigdísar Finnbogadóttur um haf, loftslag og samfélag og nýtur stuðnings íslenska ríkisins, Rannís og Carlsberg-sjóðsins.

Meðal rannsókna sem unnar hafa verið í dansk-íslenskri samvinnu eru borkjarnasýni sem tekin voru í fyrra á Reykjanesgrunni á skipi Hafrannsóknastofnunar. Þessa dagana er verið að kynna niðurstöður á ráðstefnu í Reykholti.

Katherine segir að skeið umbreytinga eigi sér stað í hafinu umhverfis Ísland. Núverandi líkön geri ráð fyrir fækkun þörunga, eða minni frumframleiðslu í sjónum. Þörungar séu lykillífverur í framleiðslu á súrefni og undirstaða lífkeðjunnar í hafinu. Rannsóknir ROCS sýni fram á aukningu þeirra.

Katherine Richardson
Mynd/Aðsend

„Við erum að ganga inn í nýtt tímabil hvað varðar lífríki sjávar, þar með taldar fiskveiðar,“ segir Katherine og bætir við að þeir sem stundi sjávarútveg þurfi að vera meðvitaðir um þessar breytingar.

Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir margt á huldu um vistkerfið umhverfis Ísland. Furðu sæti að Íslendingar hafi ekki rannsakað vistkerfi hafsins meir en raunin sé í ljósi mikilli hagsmuna.

Vísbendingar séu samkvæmt rannsóknum um að útbreiðslumunstur loðnu sé að breytast. Loðna sé kaldsjávarfiskur og mikilvæg þorskinum sem fæðutegund.