Ekkert innalandsmit COVID-19 greindist í gær, fimmta daginn í röð. Alma segir ástandið hér gott, ólíkt því sem er víða á Norðurlöndum þar sem þriðju bylgju faraldursins sé óttast.
Hún segir mikilvægt að þjóðin sé enn vakandi fyrir faraldrinum þrátt fyrir að eldgos geti átt sér stað á Reykjanesi.

Þórólfur gerði upp stöðu faraldursins frá 19. febrúar er nýtt fyrirkomulag var tekið upp á landamærunum og byrjað að krefjast PCR-vottorða. Þá hafa aðeins tveir greinst innanlands og voru báðir í sóttkví. Síðasta virka smitið sem greindist hér var 1. febrúar.

Í gær greindist enginn á landamærum. Frá 19. febrúar hafa nítján greinst með veiruna á landamærum. Þar af voru ellefu með virk smit.

Níutíu hafa greinst hér með hið svokallað breska afbrigði COVID-19 en það ekki dreifst innanlands. Fyrir fjórum dögum greindist einn með suður-afríska afbrigðið og enginn hefur greinst með brasilíska afbrigði faraldursins.

Sjö eru á Landspítalanum með gömul smit. Þó sé þungur róður þar af öðrum ástæðum.

Þórólfur segir góðar líkur á því að veiran hafi verið upprætt innanlands en er verið að greina hana á landamærum. Mikilvægt sé að gæta þess að veiran komist ekki inn í landið, einkum þegar einstaklingum með breska afbrigðið er að fjölga og einn greinst með suður-afríska afbriðgið.

Áfram þurfi að standa vel vörð um landamærin og fara hægt í afléttingar á sóttvarnatakmörkunum innanlands.


Ekki gilda aðrar reglur um bólusetta

Bólusetning gengur vel og er gert ráð fyrir að um sjö þúsund einstaklingar verði bólusettir í þessari viku og svipaður fjöldi í næstu viku.

Sennilega verður byrjað að bólusetja fólk á aldrinum 70-80 ára í næstu viku. Gert ráð fyrir 34 þúsund skömmtum bóluefnis frá Pfizer í apríl, sem dugar fyrir 17 þúsund manns. Ekki er komin dreifingaráætlun fyrir bóluefni Moderna eða AstraZeneca. Þórólfur vonar að bjartsýnar spár rætist en það þurfi að koma í ljós.

Bólusettir verði áfram að fara eftir sömu reglum og aðrir.

Frá upplýsingafundinum í dag.
Fréttablaðið/Fanndís

Sóttvarnalæknir segir engin dæmi um að fólk með neikvætt PCR-vottorð greinist smitað eftir tvöfalda skimun. Af þeim ellefu sem greinst hafa smitaðir á landamærunum undanfarið voru átta með neikvæð PCR-vottorð og skoða þarf betur uppruna þeirra. Alma segir skoðað hafi verið hvort lengja ætti tímann milli skimanna eitt og tvö en ákveðið að gera það ekki.

Hann segir slæmt að einhverjir hafi þurft frá að hverfa í bólusetningu hjá fólki á níræðisaldri í gær er bóluefni kláraðist. Það verði þó ekki skoðað sérstaklega en heilsugæslan sé að kanna málið hjá sér.

Þórólfur hefur fulla trú á að eldgosahætta komi ekki niður á þolgæðum fólks. Mikil seigla sé í fólki þegar á reynir og þjóðin sé ýmsu vön. Hann hefur ekki áhyggjur af svokallaðri farsóttarþreytu.

„Við getum tekið Pollýönnu á þetta,“ segir Þórólfur og staðan á faraldrinum sé góð hér. Hægt sé að gleðjast yfir sumum hlutum.

Alma segir svipaðar áhyggjur hafa verið viðraðar í skriðuföllunum á Austurlandi í desember. Hún ítrekar að COVID megi ekki gleymast og hvetur til áframhaldandi samstöðu og yfirvegunar. Staðan á bráðamóttökunni sé þung og verið sé að skoða hættuna sem stafar af mögulegu eldgosi frá öllum hliðum.

Varðandi dreifingu bóluefna segja Þórólfur og Alma að þau vildu auðvitað að bólusetningar gengju hraðar. Alma segir að ríku löndin megi ekki gleyma því að fátæku löndin sitji eftir og faraldrinum sé ekki lokið fyrr en það sé búið að uppræta hann allstaðar.

Þórólfur segir ekki ástæðu til að aflétta frekar á samkomutakmörkunum. Hann segir sennilega minnst íþyngjandi aðgerðir hér í allri Evrópu.