Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir úti­lokar ekki að herða þurfi að­gerðir að nýju vegna fjölda smita sem greindust hér á landi um helgina. Alls greindust 44 með kórónu­veiruna í tveimur hóp­sýkingum.

Þetta kom fram í máli Þór­ólfs á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í morgun. Önnur hóp­sýkingin tengist leik­skólanum Jörfa, en 36 smit eru rakin til hennar. Fjór­tán börn hafa smitast, sex­tán starfs­menn og sex ein­staklingar eru með fjöl­skyldu­tengsl við aðra á leik­skólanum.

Hin hóp­sýkingin tengist fyrir­tæki á höfuð­borgar­svæðinu þar sem átta ein­staklingar hafa greinst. Þór­ólfur sagði að báðar hóp­sýkingarnar tengist því að ó­var­lega var farið í sótt­kví og að ein­staklingar fóru veikir í vinnu. Þá sýni rað­greining að í báðum til­fellum sé um að ræða breska af­brigði veirunnar.

Þór­ólfur sagði að á þessum tíma­punkti væri ekki ljóst hvort grípa þurfi aftur til harðari að­gerða. „Öll þessi smit áttu sér stað áður en byrjað var að slaka á á landa­mærunum,“ sagði Þór­ólfur og bætti við að ef við myndum sjá fleiri smit, sér­stak­lega í tengslum við leik­skólann Jörfa, gæti vel farið svo að grípa þurfi til harðari að­gerða. „En það er ekki ljóst á þessari stundu.“

Margar skimanir í tengslum við hóp­sýkingarnar um helgina eru fyrir­hugaðar í dag og þá nefndi Þór­ólfur að við­ræður við Ís­lenska erfða­greiningu stæðu nú yfir um handa­hófs­kenndar skimanir. Með þeim sé hægt að varpa ljósi á það hversu út­breidd veiran er í sam­fé­laginu. Niður­stöðurnar myndu nýtast vel til að á­kveða til hvaða sam­fé­lags­legu að­gerða þurfi að grípa.

Bólu­setningar munu halda á­fram í vikunni og sagði Þór­ólfur að 10-15 þúsund ein­staklingar yrðu bólu­settir á lands­vísu. Kvaðst Þór­ólfur eiga von á að því að hægt verði að byrja að nota bólu­efni Jans­sen í vikunni. Þá verði bólu­efni Astra Zene­ca gefið ein­stak­lingum 60 ára og eldri.

Þrír eru nú á Land­spítalanum vegna CO­VID-19 og er einn í öndunar­vél.

Þór­ólfur hvatti þá sem eru veikir eða með ein­kenni CO­VID-19 að fara í sýna­töku. Þá hvatti hann þá sem hafa verið veikir til að fara ekki til vinnu fyrr en þeir hafa farið í skimun. Benti hann á að sýkingarnar um helgina sýni hvernig einn ein­stak­lingur getur sett af stað stóra hóp­sýkingu, jafn­vel heila bylgju ef ekki er farið eftir leið­beiningum.