Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir ekki útilokað að ráðist verði í frekari breytingar á reglum um sóttkví hér á landi líkt og dæmi eru um í öðrum löndum.

Að sögn Þórólfs eru slíkar breytingar alltaf í skoðun og að þær þurfi þurfi að skoða í ljósi reynslunnar, áhættu og stöðu faraldursins á hverjum tíma fyrir sig.

Spurður um reynslu á undanþágu þríbólusetta á sóttkví segir Þórólfur erfitt að segja nákvæmlega. „Þetta er nýlega tilkomið, það er erfitt að segja hver reynslan er.“

Undanþágan skapað óróleika

Þórólfur segir undanþáguna hafa skapað óróleika á ýmsum stöðum samfélagsins, fólk kjósi stundum að vera frekar í sóttkví á meðan vinnuveitendur leggi hart að fólki að mæta til vinnu.

„Það er að skapast svona einhver óróleiki í kringum þetta sem mun vonandi lagast núna fljótlega,“ segir Þórólfur. Hann bætir við að ekki sé hægt að segja nákvæmlega til um það hvort reynslan af undanþágunni hafi verið slæm hvað varðar smit.

Smitin séu orðin það útbreidd og mörg að ekki sé vitað nákvæmlega hvaðan smitin eru að koma.

Líkt og greint hefur verið frá greinast áfram yfir þúsund smit á dag innanlands og þá voru 114 smit greind á landamærunum í gær.

Óljóst hvenær árangur næst

Spurður hvenær líklegt sé að árangur núverandi sóttvarnaaðgerða muni sjást segir Þórólfur erfitt að segja til um það. Það hafi tekið rúmlega viku að sjá árangur áður en að staðan núna sé allt önnur.

Omíkron-afbrigðið smitist mun hraðar þannig að við gætum allt eins átt von á að sjá árangur fyrr núna. Smitin séu þó það útbreidd í samfélaginu að árangurinn gæti sést síðar einnig.

Þórólfur segir ótímabært að ræða frekari aðgerðir núna, „að segja hvað gerist eftir eina eða tvær vikur það er nánast vonlaust á þessu stigi.“

Endanleg ákvörðun stjórnvalda

Nýjar aðgerðir tóku í gildi á laugardaginn síðastliðinn, þar var verið að herða á ýmsum takmörkunum. Óbreyttar reglur í skólum landsins vakti athygli margra en í minnisblaði Þórólfs lagði hann til tillögur að þremur aðgerður.

Í þriðju leiðinni lagði Þórólfur til að beita víðtækum lokunum, meðal annars í skólum landsins.

Þegar Þórólfur var spurður hvort hann væri vonsvikinn með ákvörðun ríkisstjórnarinnar að halda skólum opnum segir hann svo ekki vera. Hann hafi þó ekki lagt fram þær tillögur af ástæðulausu.

„Eins og alltaf eru stjórnvöld að taka tillit til annarra þátta og þau ráða þessu endanlega. Þannig er staðan og ég er ekkert að svekkja mig á því, það er af og frá,“ segir Þórólfur.

Lítill minnihluti óbólusettur

Samkvæmt tölum af vef Landspítalans er nú 91 prósent þjóðarinnar fullbólusettur, að minnsta kosti tvíbólusettur.

Spurður hvort smitgengi samfélagsins væri drifinn af óbólusettum eða um 9 prósent þjóðarinnar sagði Þórólfur að smit væru í öllum hópum samfélagsins, staðan sé allt önnur nú en þegar Delta-afbrigðið var.

Þórólfur segir að með Omírkon-afbrigðinu sé landslagið öðruvísi, smitin séu í öllum hópum, bæði hjá bólusettum og óbólusettum. Það sé þó vitað að bólusetning komi í veg fyrir alvarleg veikindi af völdum Omíkron.

„Mestur ávinningur er vernd bóluefnanna gegn alvarlegum veikindum – þó þau séu líka að koma í veg fyrir smit þá er það ekki í eins mörgum tilvikum eins og gegn alvarlegum veikindum. Þannig við erum að sjá virknina í bóluefnunum breytast eftir því hvaða afbrigði kemur fram,“ segir Þórólfur.

Spurður hvort hann geri ráð fyrir að hlutfall óbólusettra eigi eftir að minnka segir Þórólfur að hlutfallið hafi ekki hreyfst mjög lengi núna. Níu prósentin séu samansafn af allskonar hópum fólks og ekki sé vitað hversu margir séu í hverjum hópi.

Þórólfur segir þá sem þegið hafa eina sprautu, af Jansen eða öðru bóluefni, séu ekki partur af þessum níu prósentum sem skráðir séu óbólusettir. Það séu eingöngu þeir sem hafa ekki þegið neina sprautu.

Margir greinist á landamærunum

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af heimkomu stuðningsmanna íslenska handbolta landsliðsins sem keppir nú í Ungverjalandi og Slóvakíu þessa dagana segir Þórólfur að fólk sé að koma víða frá útlöndum og beri með sér smit heim.

Hvort það verði það sama upp á teningnum með áhorfendur handbolta landsliðsins segist hann ekki geta spáð fyrir um. En bendir þó á að margir hafi verið að greinast á landamærunum undanfarið og „þetta fólk þarf náttúrulega að fara í sýnatöku þegar það kemur heim.“