Í gær voru veittar undan­þágur frá sam­komu­tak­­mörkunum fyrir nokkra tón­­leika, sama dag og hertar að­­gerðir voru kynntar. „Ég held að út af hreinum sótt­varna­­sjónar­miðum var það nú kannski ekki mjög ráð­­legt,“ segir Þór­ólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir of snemmt að segja til um það með nokkurri vissu hvort munur sé á veikindum þeirra sem smitast af Omíkron-af­brigði Co­vid en fyrri af­brigðum. Horfa þurfi til Norður­landanna þar sem róðurinn hafi tekið mjög að þyngjast eftir að Omíkron tók að breiðast út, ekki er hægt að horfa einungis á á­standið hér eins og það er í dag.

Hann hvetur alla sem tök hafa á að fara í örvunar­bólu­setningu þar sem það virðist hafa mikil á­hrif á al­var­leika veikinda vegna Omíkron-smits.

„Það hefur bara einn þurft að leggjast inn á spítalann með Omíkron og það var vegna undir­­­liggjandi sjúk­­dóms. Við erum ekki farin að sjá neina aukningu í spítala­inn­lögnum en það tekur eina til tvær vikur að sjá það, ef það gerist. Við sjáum hvað er að gerast á hinum Norður­löndunum sem eru búin að vera lengur með þetta Omíkron-af­brigði, það er að leggjast fólk þar inn veikt“, segir Þór­ólfur.

Ísraelsk yfir­­völd hyggjast veita 60 ára og eldri, heil­brigðis­­starfs­­fólki og fólki með undir­­­liggjandi sjúk­­dóma aðra örvunar­bólu­­setningu. Þór­ólfur segist ekki geta svarað því nú hvort það verði gert hér. Staðan breytist stöðugt og ekki sé hægt að slá neinu föstu er kemur að bar­áttunni við far­aldurinn. Takast þurfi á við hlutina eins og þeir eru hverju sinni.

„Það kemur ný staða þegar það kemur upp nýtt af­brigði sem menn sáu ekki fyrir. Menn sáu ekki fyrir þetta Omíkron-af­brigði. Ég hef sagt marg­oft að við þurfum að vera til­­búin að breyta á­ætlunum og skoða hlutina í því ljósi ef við fáum ný af­brigði. Hvernig það verður á­­fram er ó­­­mögu­­legt að segja, hvernig það verður með þetta Omíkrön-af­brigði, hvort það þurfi að gefa fjórða skammtinn. Á þessari stundu veit ég ekki um neinn sem er að skoða það, nema kannski Ísraels­­menn. Þetta er breyti­­legt á­­stand milli landa og eftir því sem tíminn líður. Það sem við segjum í dag getum við ekki sagt að gildi um aldur og ævi, þannig hefur það aldrei verið í þessum far­aldri frá upp­­hafi.“

Fólk á gangi um götur Tel Aviv í Ísrael.
Fréttablaðið/EPA

Í minnis­blaðið sínu til Willums Þórs Þórs­­sonar lagði Þór­ólfur til að skóla­­starf í grunn- og fram­halds­­skólum hæfist ekki fyrr en 10. janúar en ráð­herra á­kvað að fylgja þeirri til­­lögu ekki. Sótt­varna­læknir segir þetta verið lagt til vegna þess hve mikið er um smit meðal nem­enda í grunn- og fram­halds­skólum.

„Til­­lögurnar mínar um grunn­­skólana og fram­halds­­skólana aðal­­­lega á upp­­­lýsingum um Delta-af­brigðið að smit hafa verið lang­­tíðust hjá aldurs­hópnum 6 til 15 ára, þar hafa verið flest smit sem við höfum verið að greina, ekki svo mikið hjá yngri krökkunum. Á því byggðu til­­lögur mínar um að við myndum að­eins staldra við með þann hóp sem hefur smitast mest og verið að smita mikið út frá sér. Eins og ég hef sagt oft áður þá kem ég með þær sótt­varna­til­lögur sem ég tel skyn­­sam­­legar. Síðan er það ráð­herra og stjórn­valda að fjalla um þær og skoða til­­lögurnar út frá öðrum sjónar­hornum. Ég hef alltaf sagt að það er ekkert at­huga­vert við það, þannig á það að vera. Ég geri engar sér­­stakar at­huga­­semdir við það.“