Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, segir að það hafi greinst 4-5 á hverjum degi um páskana og að flestir séu í sótt­kví en það greinist enn fólk utan sótt­kvíar sem sé á­hyggju­efni.
Hann sagði að niður­staða dóm­stóla hvað varðar sótt­varna­lögin og sótt­varna­hótelið væru von­brigði fyrir ís­lenska þjóð

„Ég tel að þarna sé verið að koma í veg fyrir eina á­hrifa­ríkustu að­gerðina sem við erum að gera til þess að reyna að koma í veg fyrir að þessi blessaða veira komi inn í landið og fari hérna yfir,“ sagði Þór­ólfur.
Hann sagði að að­gerðirnar væru byggðar á stað­reyndum og að það væri því miður þannig að fólk væri ekki að virða sótt­kví og þess vegna hefði þetta verið lagt til. Hann sagðist hafa á­hyggjur af því að það yrði á­fram þannig þótt svo að flestir virði reglurnar.

„Því miður er það þannig að við erum búin að sann­reyna það að það þarf ekki nema nokkra. Það þarf ekki nema einn, tvo til þess að þetta gerist. Þá getum við fengið aðra bylgju í bakið,“ sagði Þór­ólfur og vísaði til þriðju bylgjunnar þar sem tveir aðilar virtu ekki sótt­kví og báru veiruna inn í sam­fé­lagið.

Hann sagði að þau sjái dreifingu meðal fjöl­skyldna þegar fólk kemur heim en að hættan sé meiri núna því af­brigðið sem núna er í dreifingu er meira smitandi.
Spurður hvað eigi að gera núna til að bregðast við sagði Þór­ólfur að eina raun­hæfa leiðin væri að breyta lögunum til að ná utan um út­breiðslu veirutnna.

„Ég held að þarna sé verið að fórna meiri hags­munum fyrr minni, að mínu mati,“ segir Þór­ólfur.

Hann sagði að mat fólks á frelsi ein­stak­ling og því sem er gott fyrir heildina sé mis­jafnt og taldi að sótt­kvíar­hótelið væri skásta leiðin en að laga­grund­völlurinn yrði að vera í lagi.

Hann sagði að helmingur þeirra sem greinist á landa­mærum greinist í fyrri skimun og helmingur í seinni skimun og það væri mikil­vægt að fylgjast með fólki.

Hann sagði mikil­vægt að tryggja laga­stoðina svo að hægt sé að fram­fylgja því að koma fólki í þetta úr­ræði. Hann sagði að hann væri búinn að koma því á­leiðis til ráða­manna og taldi að ríkis­stjórnin myndi funda um þetta í dag.

Þór­ólfur ræddi einnig um bólu­setningar í þættinum og sagði að það væri komin dreifingar­á­ætlun fyrir Pfizer út júní og það væri meira að koma en hefði fyrst verið á­ætlað. Hann vonaðist til þess að fá dreifingar­á­ætlun fá hinum fyrir­tækjunum sem fyrst.

Hann sagði að það væri um 50 prósenta aukning á bólu­efni Pfizer.

„í júní­lok ættum við að vera með fulla bólu­setningu fyrir 130 þúsund manns,“ sagði Þór­ólfur og sagðist inn í þeirri tölu væru ekki öll bólu­efnin sem væntan­leg eru.

Við­talið er hægt að hlusta á hér í heild sinni.