„Alþjóðlegar stofnanir eins og Sóttvarnastofnun Evrópu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin eru jafnvel að spá því að það geti komið ný bylgja og ný afbrigði, það er ekkert víst og vonandi ekki,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Hann sjálfur segist ekki telja það líklegt að ný Covid-bylgja skelli á. „Þetta er það sem þessar stofnanir eru að spá en mér finnst það frekar ólíklegt. En við þurfum að vera undir það búin að það geti gerst, láta það ekki koma okkur á óvart og bregðast við ef svo verður,“ segir Þórólfur.

Í gær lá enginn með Covid-19 á gjörgæsludeild Landspítala en fjórtán einstaklingar með sjúkdóminn voru á spítalanum. Þegar innlagnir voru flestar á þessu ári lágu 88 sjúklingar með Covid á spítalanum, í mars síðastliðnum. Inniliggjandi sjúklingum með Covid fer því ört fækkandi og segir Þórólfur flest þau sem eru með sjúkdóminn ekki liggja á sjúkrahúsinu vegna Covid.

„Allir þeir sem eru lagðir inn á spítalann eru skimaðir fyrir Covid, svo að orsök innlagnarinnar þarf ekki að vera Covid,“ útskýrir Þórólfur.

„Þetta er ekki eins og það var þegar margir voru lagðir inn alvarlega veikir vegna Covid, landslagið er allt annað og það er ekki nokkur vafi á því að við getum þakkað bólusetningum fyrir það að við séum ekki með jafn alvarleg veikindi,“ bætir hann við.

Þórólfur segir starfsfólk spítalans sjá greinilegan mun á veikindum hjá þeim sem eru bólusett og þeim sem eru það ekki. 82 prósent landsmanna, fimm ára og eldri, eru fullbólusett en einstaklingur telst fullbólusettur hafi hann fengið tvo skammta bóluefnis. Um 292 þúsund einstaklingar hafa fengið tvo skammta og yfir 311 þúsund manns hafa fengið að minnsta kostið einn skammt bóluefnis.

Þá segir Þórólfur að hjá þeim sem fái endursmit séu einkennin að jafnaði vægari en hjá þeim sem séu að smitast í fyrsta sinn. „Endursmit eru um 10-20 prósent af þeim smitum sem eru að greinast núna og innlagnir á sjúkrahús hjá fólki með endursmit eru mjög fátíðar,“ segir Þórólfur.

Spurður að því hvort við höfum náð þeim tímamótum þar sem Covid er orðið að „venjulegri flensu“ segir Þórólfur erfitt að segja nákvæmlega til um það. „Þetta er að verða miklu vægara þó að þetta sé enn þá úti í samfélaginu en þar eru líka alls konar aðrar veirur í gangi. Það er erfitt að fullyrða að þessi fari þá leið og verði eins og flensa, en það væri óskandi.“