„Undan­farið hafa birst greinar og full­yrðingar frá ýmsum máls­metandi aðilum í ís­lensku sam­fé­lagi um að fram­kvæmd sótt­kvíar vegna CO­VID-19 hér á landi sé gjör­ó­lík fram­kvæmd sótt­kvíar t.d. á hinum Norður­löndunum,“ svona hefst pistill Þór­ólf Guðna­sonar, sótt­varna­læknis á vefco­vid.is

„Einnig er látið að því liggja að flestar þjóðir fram­kvæmi sótt­kví á sama máta en að fram­kvæmdin sé með gjör­ó­líku sniði hér á landi. Greini­legt er að þeir aðilar sem tjá sig um mál­efnið hafa annað­hvort ekki aflað sér nægi­legra góðra upp­lýsinga eða skrum­skælt þær ó­af­vitandi eða af yfir­lögðu ráði,“ heldur Þór­ólfur á­fram.

Þegar upp­lýsingar um fram­kvæmd sótt­kvíar á hinum Norður­löndunum er skoðuð t.d á vef Sta­tens Serum Insti­tut í Dan­mörku, Fol­kehelseinsti­tu­tet í Noregi, Folk­halso­myndig­heten í Sví­þjóð og Finnish Insti­tut for health and welfare í Finn­landi kemur í ljós, að hver þjóð er með sínar eigin leið­beiningar og út­færslur á sótt­kví sem í veiga­miklum at­riðum eru ó­líkar.

„Allar Norður­landa­þjóðirnar skil­greina út­setningu fyrir smiti á sama hátt og skil­greina sótt­kví og ein­angrun á sama máta þó fram­kvæmdin sé ólík eins og áður sagði. Flestar þjóðirnar setja sínar leið­beiningar undir þeim for­merkjum að bólu­setning gegn CO­VID-19 sé út­breidd og far­aldurinn sé í lág­marki í sam­fé­laginu en því er nú ekki til að dreifa þessa stundina í flestum landanna,“ skrifar Þór­ólfur.

Bólu­settir sleppa við sótt­kví en fara í PCR-próf

Í mörgum landanna eru börn t.d sett í sótt­kví við út­setningu á heimilium en þurfa að undir­gangast próf reglu­lega í viku­tíma eftir út­setningu í skólum. Í flestum landanna eru hins vegar heilu bekkirnir settir í hefð­bundna sótt­kví ef upp koma fleiri en eitt smit í sama bekk.

„Nokkur hinna Norður­landanna gera greinar­mun á þeim sem eru bólu­settir og óbólu­settir þar sem að óbólu­settir þurfa ekki að fara í sótt­kví en þurfa að undir­gangast PCR próf á á meðan að bólu­settir eru lausir við í­þyngjandi að­gerðir svo fremi að þeir séu ein­kenna­lausir,“ skrifar Þór­ólfur og bendir á að Ís­landi hafa reglur um sótt­kví í skólum verið rýmkaðar veru­lega undan­farið.

„Einungis þeir settir í sótt­kví sem raun­veru­lega voru út­settir fyrir smiti á meðan að aðrir fara í smit­gát. Þeir sem eru í smit­gát geta haldið á­fram sinni dag­legri vinnu en þurfa að fara í próf á fjórða degi. Heilu bekkirnir hafa hins vegar ekki verið settir í sótt­kví nema ef upp hafa komið mörg smit og eins ef líkur eru taldar á að smit verði út­breitt.“

Fréttablaðið/Anton Brink

Fullbólu­settir hafa ekki verið undan­þegnir sótt­kví hér á landi og byggir það á þeim gögnum sem aflað hefur verið að smit­líkur eru tölu­verðar hjá full­bólu­settum ein­stak­lingum þó að þær séu um þre­falt minni en hjá full­bólu­settum.

„Ef að í ljós kemur að örvunar­skammtur bólu­efna dregur um­tals­vert meira úr líkum á smiti um­fram tvo skammta bólu­efna þá verða reglur um sótt­kví hér á landi endur­skoðaðar. Í reglu­legum sam­ræðum mínum við starfs­fé­laga á hinum Norður­löndunum hefur komið fram að í undir­búningi þar sé endur­skoðun á ýmsum þeim leið­beiningum sem nú gilda í ljósi aukinnar út­breiðslu far­aldursins. M.a. hafa Danir nú þurft að loka nokkrum skólum vegna aukinnar út­breiðslu,“ skrifar Þór­ólfur.

Hann segir jafn­framt að smitrakning og beiting sótt­kvíar og ein­angrunar hefur verið þunga­miðjan í þeim sótt­varna­ráð­stöfunum sem við höfum beitt með góðum árangri í bar­áttunni við CO­VID-19 til þessa.

Hægt er að lesa pistill Þór­ólfs í heild sinni hér.