Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segist svolítið smeykur við umfang inflúensunnar, útbreiðsluna og alvarleikann, sem gæti orðið meiri en áður. „Vegna þess að því að við höfum ekki verið með inflúensuna í gangi síðastliðin tvö ár. Það er alveg mögulegt en það er kannski of snemmt að segja til um það.“

Nú þegar er búið að staðfesta tilfelli inflúensu hjá hátt í 300 manns að sögn Þórólfs sem telur inflúensuna koma bratt inn.

Aðspurður hvort möguleiki sé á að ónæmi fólks sé lélegra gagnvart inflúensu nú frekar en áður vegna tveggja ára pásu svarar Þórólfur játandi.

„Jú það er ástæða fyrir því að menn óttast að útbreiðslan geti orðið meiri og alvarleikinn kannski meiri er að við höfum ekki verið með neina inflúensu síðastliðin tvö ár þannig gæti ónæmi verið lakara núna af því að svona reglubundnar sýkinga efla ónæmið í samfélaginu og efla þannig viðnámsþróttinn.“

Þórólfur segir ákveðna möguleika á því að útbreiðsla inflúensunnar verði meiri og þá sé einnig möguleiki á því að veikindin gætu orðið verri.

„Við þurfum bara að vera við því búinn. Við höfum verið að hvetja til bólusetningar og það er búið að bólusetja mjög marga, eitthvað um 85 þúsund manns og ennþá eru til um tíu þúsund skammtar í samfélaginu og aldrei verið bólusett eins mikið og núna.“

Lyf til að meðhöndla inflúensu

Að sögn Þórólfs séu þó til lyf til að meðhöndla inflúensuna, Tamiflu lyf, sem eru lyfseðilsskyld. „Við höfum verið að hvetja lækna til að vera á varðbergi og hefja meðferð snemma sérstaklega hjá fólki með undirliggjandi sjúkdóma sem að gætu gert sjúkdóminn verri,“ segir hann.

Þá á einnig eftir að koma í ljós hvernig bóluefnið gegn inflúensunni virki, „það veit maður aldrei í byrjun árlegrar inflúensu, hvernig bóluefnið passar við þá inflúensu sem er að ganga það á eftir að koma í ljós þannig að það eru svona ýmsir óvissuþættir.“

Aðspurður hvenær inflúensan nái hámarki segir Þórólfur hámarkinu ekki náð, það sé alveg öruggt. „Yfirleitt tekur árleg inflúensa sex til átta vikur að ganga yfir.“

Kórónuveirufaraldur á niðurleið

Þórólfur segir vísbendingar benda til að kórónuveirufaraldurinn hér á landi sé hægt og bítandi á niðurleið.

Smituðum einstaklingum sé að fækka inni á heilbrigðisstofnunum þó að það sé enn dálítill fjöldi sem leggst þar inn vegna veikinda.

Þórólfur segir engar vísbendingar um að ný afbrigði hafi skotið upp kollinum. „Það er ekki raðgreint eins mikið og áður en það er sama sagan. Við fylgjumst vel með því sem er að gerast í Evrópu og það eru ekki neinar tilkynningar um ný afbrigði.“

Að sögn Þórólfs virðist ekki vera mikið um endursmit hjá fólki. Það séu um tíu til ellefu prósent sem hafi smitast aftur af þeim sem smitaðist af Covid-19 fyrir desember áður en Omíkron-afbrigðið tók völdin.

„Síðan höfum við skoðað endursmit hjá þeim sem hafa smitast eftir að Omíkron byrjaði og það er nú ekkert mikið um endursmit,“ segir Þórólfur og bætir við að hann haldi að það séu ekki vísbendingar um það að þeir sem hafi smitast af Omíkron séu eitthvað líklegri til að smitast aftur af því afbrigði.