Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, segir að það sé í höndum Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, að ákveða næstu aðgerðir þegar kemur að sóttvarnaraðgerðum stjórnvalda í tengslum við Covid-19.

Þetta kom fram í viðtali við Þórólf í Kastljósi í kvöld þar sem farið var yfir víðan völl.

Þar ræddi Þórólfur meðal ummæli sín í samtali við Fréttablaðið í gær þar sem hann sagðist óttast afleiðingar þess að aflétta samkomutakmörkunum vegna RS-veiru og in­flúensu.

„Það er greinilegt að það hafa einhverjir ekki skilið þetta eða eitthvað misfarist. Þetta er ekki frá mér komið, þetta það sem Sóttvarnarstofnun Evrópu hefur lagt til og hvatt aðildarríkin til að huga að þessum málum,“ sagði Þórólfur á Rúv í kvöld, aðspurður út í ummæli sín í gær.

Þar að auki ræddi hann mikilvægi þess að halda aftur af kórónaveirunni til að forða spítalanum frá frekara álagi fyrir komu inflúensunnar sem er að sögn Þórólfs skæð í vetur.

„Ég á alls ekki við þetta eins og aðrir hafi sagt, að ég vilji beita sömu aðgerðum gegn öðrum veirum og að þetta verði árlegur viðburður. Það er alls ekki þannig,“ sagði Þórólfur og bætti við að slíkar veirusýkingar væru oft fljótlega komnar og farnar.

„RS veiran og inflúensan koma á hverju ári, ganga yfir og svo fara þær. Covid er ekki enn farið.“

Hann gefur lítið fyrir sögur um að hann sé að takmarka frelsi íbúa landsins.

„Það er mikill misskilningur að halda það að það sé ég sem sé að skerða frelsi fólks. Ég kem með tillögur út frá sóttvarnarsjónarmiðum um hvernig faraldurinn er, hvernig best sé að höndla hann og það er svo í höndum ráðherra að ákveða þetta,“ sagði Þórólfur