Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, segir að staðan sé ekki góð og það sama og Svan­dís Svavars­dóttir, heil­brigðis­ráð­herra í morgun, að smit­fjöldi dagsins sé tölu­vert fleiri en í gær en þá höfðu greinst daginn áður 144 smit.

„Við eigum eftir að fá endan­lega tölu um þetta,“ sagði Þór­ólfur í Bítinu á Bylgjunni á morgun.

Fram kom í við­talinu að af þeim sem eru inni­liggjandi á spítalanum er einn á fer­tugs­aldri í hjarta- og lungna­vél og tveir í öndunar­vél.

Hann segir að hingað til hafi verið einn á dag að leggjast inn en býst við því að þeim eigi eftir að fjölga sam­hliða fjölgun smita.

„Inn­lagnirnar eru ekki stöðugar þannig þetta getur komið í kippum. Þetta er orðið illa við­ráðan­legt fyrir bæði Co­vid-göngu­deildina og rakningar­teymið,“ segir Þór­ólfur og að skipu­lagið sé að riðlast.

Vefur Co­vid.is er upp­færður fyrir klukkan 13 alla daga og því er ekki ljóst hve­nær nánari upp­lýsingar fást um smit­fjölda.

Nýjar takmarkanir

Ríkis­stjórnin fundar núna og mun að loknum funda kynna hertar til­lögur um sam­komu­tak­markanir byggt á til­lögum Þór­ólfs. Svan­dís Svavars­dóttir sagði á Rás 2 í morgun að minnis­blað Þór­ólfs væri að þessu sinni sögu­legt og ó­venju­legt að nokkru leyti.

Þór­ólfur vildi ekkert tjá sig um inni­hald minnis­blaðsins á Bylgjunni í morgun en sagði það ljóst að ef ekkert verður gert þá lendum við í vanda­málum á spítalanum okkar. Hann sagði það greini­legt í Evrópu þar sem að smit­fjöldi hefur farið upp líka. Hann tók dæmi um Rúmeníu sem hafa flutt sjúk­linga til annarra landa því þau anna ekki eftir­spurn.

Þá var hann spurður út í svo­kallaða smit­veislur sem haldnar eru í Noregi og hvort að hann hafi á­hyggjur af því að þær komi hingað. Hann í­trekaði það sem hann hefur oft sagt áður um að það sé ekki betra að smitast af veirunni því enginn viti hversu veikur hann getur orðið eða hverja hann getur smitað sem eru í á­hættu­hópi.

Hann sagði að hann vonaðist til þess að bólu­setningar­á­takið sem er að hefjast geti að­stoðað við far­aldurinn en að það þurfi að líða fimm til sex mánuðir frá öðrum skammti.

Hvað varðar landa­mæra­tak­markanir sagði Þór­ólfur að helmingur þeirra sem greindist á landa­mærunum hafi greinst með nýtt af­brigði og að það þurfi að skoða heilsu­fars­legar af­leiðingar þess að hleypa fólki inn ó­hindrað.

Hægt er að hlusta á við­talið við Þór­ólf hér á vef Vísis.