Nýtt afbrigði kórónaveirunnar greindist í Suður-Afríku síðastliðinn þriðjudag og hafa margir áhyggjur af því að það geti reynst hættulegra en fyrri afbrigði vegna fjölda stökkbreytinga. Afbrigðið nefnist B.1.1.529 og eru yfir þrjátíu stökkbreytingar í broddpróteini þess, rúmlega tvöfalt fleiri en í Delta-afbrigðinu. Flest bóluefni nota broddpróteinið til þess að virkja ónæmiskerfið gegn Covid og stökkbreytingar í því geta gert ónæmisfrumum erfiðara fyrir að vinna bug á veirunni.

Ekki liggur fyrir hvort afbrigðið sé meira smitandi en fyrri afbrigði veirunnar, hvort það komist undan bóluefnunum eða valdi alvarlegri veikindum. Mikil aukning í fjölda smita í Suður-Afríku þykir þó áhyggjuefni og Susan Hopkins, aðalráðgjafi hjá sóttvarnastofnun Bretlands, lýsti afbrigðinu sem „því mest áhyggjuvaldandi sem við höfum séð“.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ekki öll kurl komin til grafar hvað nýja afbrigðið varðar og að framkvæma þurfi frekari rannsóknir áður en hægt sé að skera úr um alvarleika þess.

„Það sem menn hafa verið að sjá eru þessar miklu stökkbreytingar á þessu svokallaða Spike- eða S-próteini sem er aðalpróteinið sem veiran notar til þess að smita og bóluefnin eru gegn því. Vegna þess að það eru svo margar breytingar sem sjást þar þá hafa menn ákveðnar áhyggjur af því að þetta afbrigði muni hegða sér einhvern veginn öðruvísi en við eigum eftir að fá betri upplýsingar um það, þær liggja ekki fyrir núna,“ segir hann.

Sum lönd hafa þegar gripið til þess ráðs að herða takmarkanir á landamærum vegna ótta við afbrigðið. Bretland og Holland hafa til að mynda lokað tímabundið fyrir ferðalög frá sex Afríkuríkjum og Evrópusambandið skoðar nú hvort banna eigi flug frá áhættusvæðum til allra aðildarríkja. Þá ætla Tékkland og Þýskaland einnig að loka fyrir ferðalög frá þessum löndum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir færri en hundrað staðfest smit af afbrigðinu hafa fundist. Flest þeirra hafa greinst í Suður-Afríku en einhver hafa greinst í Hong Kong, Ísrael, Botsvana og Belgíu.

Að sögn Þórólfs eru flest lönd ekki með jafnumfangsmiklar aðgerðir á landamærum og Ísland og segir hann óljóst hvort herða þurfi aðgerðir á landamærunum enn frekar.

„Við erum með ákveðnar takmarkanir í gangi en það er ekki fyrirhugað af minni hálfu að fara út í einhverjar hertar aðgerðir á landamærunum. En við þurfum bara að sjá hvernig þetta þróast og hvernig þetta verður, hvort við þurfum að grípa til einhverra slíkra aðgerða eins og við vorum með áður, það er óljóst á þessari stundu.“

Spurður hvort ekki sé varhugavert að stöðva ferðalög frá ákveðnum löndum eins og Suður-Afríku eða öðrum Afríkulöndum segir hann slíkar vangaveltur ekki tímabærar.

„Það er bara algjörlega ótímabært að ræða eitthvað meira um þetta. Við eigum eftir að fá upplýsingar um þetta afbrigði, hvað það þýðir, hvernig það er og hvernig það hegðar sér. Annað eru bara spekúlasjónir og ég held að það sé best að sleppa því, annars geta menn bara lent út í mýri.“