Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að munnvatnssýni til greiningar COVID-19 séu í flestum tilfellum óásættanleg.

„Í fréttum undanfarið hefur borið á fullyrðingum þess efnis að foreldrum barna standi til boða að tekin verði munnvatnssýni til greiningar COVID-19 í stað nefkokssýnis. Þetta er ekki allkostar rétt af þeim ástæðum að munnvatnssýni er miklu óáreiðanlegri sýni en nefkokssýni bæði þegar um er að ræða hraðgreingarpróf og PCR próf,“ segir Þórólfur í pistli á vefnum Covid.is.

Pinnar geti verið íþyngjandi

Greint var frá því um helgina að heimilt sé að fram­kvæma hrað­próf á börnum með munn­vatns­sýni, í stað hinna hefð­bundnu PCR- eða hrað­prófa til þess að hljóta að­gang að hvers­kyns við­burðum.

Magnús Geir Þórðarson, Þjóðleikhússtjóri, sagði í samtali við Fréttablaðið, að leikhúsin hafi pressað á aukna afkastagetu. Það geti verið í­þyngjandi, sér í lagi fyrir yngri kyn­slóðirnar, að fá pinna upp í nefið á sér, eins og er gert í hefð­bundnum sýna­tökum.

Aðeins sem undantekning

Þórólfur segir að munnvatnssýni ættu aðeins að vera undantekning.

„Í undantekningartilfellum er hægt að sætta sig við munnvatnssýni til greiningar en það á að vera algjör undantekning. Ákvörðum um slíkt verður að vera sameiginleg ákvörðun sýnatökufólks og foreldra.“