„Það er miklu minni útbreiðsla í samfélaginu núna og það er vegna þess að hjarðónæmi er náð,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. „Svo helst þetta allt í hendur og með færri smitum fækkar innlögnum á sjúkrahús,“ bætir hann við.

48,7 prósent íbúa landsins hafa greinst með Covid-19 og í gærmorgun lágu 17 sjúklingar með Covid á Landspítala. Þann 1. apríl voru þeir 39 talsins og hálfum mánuði fyrr lágu 85 sjúklingar með Covid á spítalanum.

Þórólfur segir þá bylgju sem nú gengur yfir, Omíkron-bylgjuna, að öllum líkindum að klárast. Þó séu enn óvissuþættir varðandi framhald faraldursins. „Í fyrsta lagi er það óvissuþátturinn sem snýr að því hversu lengi þetta ónæmi sem nú er til staðar endist,“ segir hann.

„Það eru alveg líkur á því að það muni dvína þannig að fólk geti smitast aftur, kannski í haust eða eitthvað, við vitum það ekki. Svo eru auðvitað líkur á því að það komi ný afbrigði sem þetta ónæmi sem við erum komin með verndi ekki fyrir,“ segir Þórólfur en bætir við að ómögulegt sé að segja til um það hvort eða hvenær það geti gerst.

„Þess vegna held ég að það sé óvarlegt að segja að Covid sé almennt búið. Það hefur kannski um helmingur mannkyns fengið Covid sem þýðir að það er enn þá fullt af fólki sem getur fengið Covid í heiminum og þá er enn þá möguleiki á nýjum afbrigðum,“ útskýrir Þórólfur sem sjálfur hefur ekki smitast af veirunni.

Spurður að því hvort fyrri afbrigði geti dúkkað upp aftur segir Þórólfur svo ekki vera. „Fyrri afbrigði eru bara horfin vegna þess að Omíkron hefur tekið yfir.“

Hann segir Omíkron skapa vernd gegn fyrri afbrigðum líkt og Delta og Alpha sem geri það að verkum að fólk smitist ekki af þeim. Komi upp algjörlega nýtt afbrigði veiti fyrri afbrigði ekki vernd gegn þeim. Upp hafi þó komið ýmis undirafbrigði Omíkron. „En ég myndi nú halda að ónæmið gegn Omíkron ætti að veita vörn gegn þessum undirafbrigðum eins og staðan er núna,“ segir Þórólfur.

Í Omíkrón-bylgjunni sem hófst þann 30. júní í fyrra höfðu í gærmorgun 34 einstaklingar með Covid látið lífið. Þórólfur segir ómögulegt að segja til um hvort um sé að ræða dauðsföll af völdum sjúkdómsins eða hvort ástæður andlátanna séu aðrar þrátt fyrir að fólkið hafi verið með Covid.

„Oft er þetta fólk sem er með marga undirliggjandi sjúkdóma og þolir lítið, en ef fólki með undirliggjandi sjúkdóma versnar þegar það fær Covid þá er þetta Covid-tengt dauðsfall,“ segir Þórólfur.

Þá segir hann að umfram dauðsföll séu einnig til skoðunar. „Við fylgjumst náið með því hvort þeim fjölgi og hvort þau séu fleiri en á sama tíma árin á undan. Það var greinilegt að þau voru fleiri í mars á þessu ári en vanalega. Við getum samt ekki fullyrt að það sé vegna Covid. Það er þó líklegt að það hangi saman með útbreiðslu sjúkdómsins.“

Síðustu tvö ár hefur verið mikil útbreiðsla Covid-smita um páska og í gildi hafa verið strangar sóttvarnareglur. Sagan er önnur núna og segist Þórólfur taka því fagnandi. Spurður að því hvort til sam­komu­banns og harðra sóttvarnareglna gæti komið aftur segir hann það ólíklegt. „Það þyrfti að vera eitthvað mikið í gangi en við vitum hvað virkar ekki og hvað virkar ef allir taka þátt en vonandi þurfum við ekkert að vera að grípa til þeirra aðgerða aftur.“