Á morgun taka á gildi nýjar sam­komu­tak­markanir í skugga met­fjölda smita en í gær greindust 168 smit innan­lands. Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir í sam­tali við Frétta­blaðið þó ekki hægt að spá fyrir um það hvort met muni falla dag eftir dag.

„Maður getur ekki lagt úr frá ein­staka tölum milli daga en þegar við horfum á þróunina þá er þetta í veldis­vexti enn þá þannig að við gætum alveg eins átt eftir að sjá tölu­vert fleiri eftir að greinast á næstunni. Ég vona það svo sannar­lega ekki. En ég held að við þurfum að vera undir það búin.“

Hvort það þurfi að ráðast í harðari að­gerðir vegna þessa segir hann ekki þörf á því eins og staðan er núna.

„Ég veit ekki hvort það er á­stæða endi­lega núna strax, við þurfum að sjá hvað gerist. Við þurfum sér­stak­lega að fylgjast með því sem er að gerast á spítalanum. Þar er sem betur fer ekki mikið álag eins og staðan er núna“, segir Þór­ólfur.

„Þetta skýrist kannski af því að stór hluti af þeim sem eru að greinast núna er ungt fólk, það veikist síður al­var­lega. Þetta er í þessari stöðu og við þurfum að sjá hvað gerist núna næstu dagana.“ Hann segir þau sem nú eru að greinast á víðu aldurs­bili. Hóp­smitið á Akra­nesi hafi einkum verið meðal ungs fólks og hefur skóla­starf verið lagt af þeim sökum enda margir starfs­menn og nem­endur greinst smitaðir og fjöldinn allur farið í sótt­kví.

Að­spurður um það hvort smitin sem komið hafa upp í skólum séu á­stæða til að grípa til að­gerða varðandi skóla­starf segir Þór­ólfur að leitast hafi verið við í far­aldrinum að skerða það sem minnst.

„Við erum að reyna öll að stuðla að því að halda starf­semi á­fram, innan marka, þannig að veikindi verði ekki það mikil að þau skapi vanda­mál fyrir spítala­kerfið sér­stak­lega. Það er það sem við erum að horfa á. Nú erum við að hvetja til þriðju sprautu, örvunar­bólu­setningar, sem ég vona að muni skila sínum árangri líka“, segir Þór­ólfur.

Bólu­sett í Laugar­dals­höll í sumar.
Fréttablaðið/Ernir

Hvernig þátt­takan verður í örvunar­bólu­setningu segir hann ó­mögu­legt að segja til um en það sé mikil­vægt að allir sem fá boð mæti í sprautu.

„Við verðum að öll leggjast á árar til að reyna að hvetja fólk til að mæta, það er til mikils að vinna. Bæði fyrir ein­stak­lingana sjálfa, að fá eins góða vernd og mögu­legt bæði gegn smiti og al­var­legum veikindum. Þriðja sprautan virðist vernda vel gegn smiti, ef við náum góðri þátt­töku mun það skapa út­breitt sam­fé­lags­legt ó­næmi sem kemur í veg fyrir dreifingu. Þannig getum við komist út úr Co­vid eins vel eins og mögu­legt er.“

Nú þegar hafa um 30 þúsund manns fengið þriðja skammtinn og hafa að sögn Þór­ólfs tíu úr þeim hópi fengið stað­fest smit en í flestum til­fellum fengið væg ein­kenni. Að­eins einn fékk „að­eins meiri ein­kenni“ að hans sögn.

Þór­ólfur segir stöðuna hér vera í takti við það sem verið hefur í ná­granna­löndum. „Það er að gerast ná­kvæm­lega það sama í Noregi og Dan­mörku og þessum löndum eins og ég er búinn að vera að tala um allan tímann. Þegar við af­léttum fengum við þetta í bakið, þau eru að fá þetta í bakið núna. Nú eru Danir að herða, setja aftur í gildi lög sem kveða á um að Co­vid sé al­var­legur sjúk­dómur. Það er það sama að gerast þar og hérna, það hefði líka verið mjög undar­legt ef það hefði ekki gerst. Þetta er sama vanda­málið sem allar þjóðir eru að glíma við. Danir eru að grípa til harðari að­gerða en við, 200 manna fjölda­tak­markanir til dæmis. Nú er ekki lengur hægt að vitna til hinna Norður­landa, að þau séu með minni tak­markanir en við.“

Sví­þjóð skeri sig þó úr. „Það er ekki nein aukning hjá þeim. Ég held að það skýrist af því þeir eru búnir að ganga í gegnum svo erfiðan far­aldur til þessa, það er meira sam­fé­lags­legt ó­næmi vegna út­breiddra sýkinga. Enda hafa þeir keypt það dýru verði, þeir hafa fengið mun al­var­legri auka­verkanir en við - hlut­falls­lega fimm­tán sinnum fleiri dauðs­föll í Sví­þjóð af völdum Co­vid-19 en hjá okkur. Þeir eru senni­lega komnir á betri stað með sam­fé­lags­legt ó­næmi, ég myndi halda það.“