Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, mælir með þriðja skammti fyrir alla 16 ára og eldri þegar sex mánuðir eru liðnir frá grunnbólusetningu fyrir Covid-19.
Þetta kemur fram á vef Landlæknis.
Mikil fjölgun Covid-19 tilfella hér á landi er ástæða þessa og er farið að bera á auknum alvarlegum veikindum, innlögnum og aukinni þörf fyrir gjörgæslumeðferð.
Sextán liggja nú inni á spítalanum og fimm eru á gjörgæslu.
„Heilsugæslan vinnur að því að auka afkastagetu í framkvæmd bólusetningar en nóg bóluefni er til eða væntanlegt til að bólusetja alla sem ná þessum tímamótum fyrir áramót. Til hagræðingar verður lágmarkstíminn stilltur á 5 mánuði þar sem mjög margir ná 6 mánaða markinu milli jóla og nýárs. 70 ára og eldri og ónæmisbældir einstaklingar skv. skilmerkjum sóttvarnalæknis óháð aldri geta þó fengið þriðju bólusetninguna þegar 3 mánuðir eru liðnir frá grunnbólusetningu vegna aukinnar áhættu á ófullnægjandi svari við tveimur bólusetningum,“ segir í tilkynningu Landspítalans.
Þá er einnig greint frá því að þrír hópar ættu ekki að þiggja örvunarbólusetningu nema í samráði við lækni, þeir eru eftirfarandi:
- Einstaklingar með sjálfsónæmissjúkdóma sem eru með virkan sjúkdóm þegar örvunarbólusetning er ráðlögð.
- Einstaklingar með sjálfsónæmissjúkdóma sem fengu versnun einkenna eða ný, alvarleg einkenni innan 2ja vikna frá COVID-19 grunnbólusetningu.
- Einstaklingar sem fengu lífshættulegar aukaverkanir við grunnbólusetningu, s.s. bráðaofnæmi.