Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það alrangt að bóluefnin sem notuð eru gegn Covid-19 séu misheppnuð. Þetta kom fram í svari Þórólfs við fyrirspurn Margrétar Friðriksdóttur, ritstjóra Fréttin.is, á upplýsingafundi almannavarna í morgun.
Hverjum og einum fjölmiðlamanni gafst færi á að spyrja þríeykið einnar spurningar og nýtti Margrét sýna spurningu í að spyrja út í gagnsemi bóluefna. Byrjaði hún spurninguna á tilvísun í ónefndan hjúkrunarfræðing sem var svona:
„Á öllum þeim bólusetningum sem ég hef kynnst í lífinu: Barnaveiki, stífkrampi, mislingar, rauðir hundar, hlaupabóla, lifrarbólga, heilahimnubólga, berklar og inflúensusprautur þá hef ég aldrei kynnst bóluefni sem neyðir mig til að vera með grímu og jafnvel plasthlíf og viðhalda fjarlægð frá fólki, þrátt fyrir að vera þríbólusett.“
Margrét beindi spurningu sinni svo að Þórólfi og spurði hvort þessi orð hjúkrunarfræðingsins væru ekki staðfesting á því að þessi „svokölluðu“ bóluefni væru bara misheppnuð eins og smitfjöldi segir til um. Eftir því sem fleiri væru bólusettir þeim mun fleiri smit myndu greinast.
Þórólfur sagði þetta rangt.
„Þetta er röng ályktun hjá þér og á ekki við rök að styðjast. Flest bóluefni sem við erum að nota núna, til dæmis í barnabólusetningum og höfum gert í mörg ár, þau koma vel í veg fyrir smit. Það sem hefur komið í ljós með þessi bóluefni er það að þau eru ekki eins góð til að koma í veg fyrir smit en þau eru góð til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi. Þannig er ekki hægt að draga þá ályktun að þetta séu misheppnuð bóluefni, síður en svo. En vissulega hefði maður viljað sjá bóluefnin betri til að koma í veg fyrir smit, þau eru svo sannarlega að koma í veg fyrir alvarleg veikindi. Það hafa menn séð bæði hér á spítalanum og svo hafa rannsóknir erlendis sýnt það.“