Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir það al­rangt að bólu­efnin sem notuð eru gegn Co­vid-19 séu mis­heppnuð. Þetta kom fram í svari Þór­ólfs við fyrir­spurn Margrétar Frið­riks­dóttur, rit­stjóra Fréttin.is, á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í morgun.

Hverjum og einum fjöl­miðla­manni gafst færi á að spyrja þrí­eykið einnar spurningar og nýtti Margrét sýna spurningu í að spyrja út í gagn­semi bólu­efna. Byrjaði hún spurninguna á til­vísun í ó­nefndan hjúkrunar­fræðing sem var svona:

„Á öllum þeim bólu­setningum sem ég hef kynnst í lífinu: Barna­veiki, stíf­krampi, mis­lingar, rauðir hundar, hlaupa­bóla, lifrar­bólga, heila­himnu­bólga, berklar og inflúensu­sprautur þá hef ég aldrei kynnst bólu­efni sem neyðir mig til að vera með grímu og jafn­vel plast­hlíf og við­halda fjar­lægð frá fólki, þrátt fyrir að vera þrí­bólu­sett.“

Margrét beindi spurningu sinni svo að Þór­ólfi og spurði hvort þessi orð hjúkrunar­fræðingsins væru ekki stað­festing á því að þessi „svo­kölluðu“ bólu­efni væru bara mis­heppnuð eins og smit­fjöldi segir til um. Eftir því sem fleiri væru bólu­settir þeim mun fleiri smit myndu greinast.

Þór­ólfur sagði þetta rangt.

„Þetta er röng á­lyktun hjá þér og á ekki við rök að styðjast. Flest bólu­efni sem við erum að nota núna, til dæmis í barna­bólu­setningum og höfum gert í mörg ár, þau koma vel í veg fyrir smit. Það sem hefur komið í ljós með þessi bólu­efni er það að þau eru ekki eins góð til að koma í veg fyrir smit en þau eru góð til að koma í veg fyrir al­var­leg veikindi. Þannig er ekki hægt að draga þá á­lyktun að þetta séu mis­heppnuð bólu­efni, síður en svo. En vissu­lega hefði maður viljað sjá bólu­efnin betri til að koma í veg fyrir smit, þau eru svo sannar­lega að koma í veg fyrir al­var­leg veikindi. Það hafa menn séð bæði hér á spítalanum og svo hafa rann­sóknir er­lendis sýnt það.“