Að minnsta tveir einstaklingar hafa kvartað vegna vistunar í sóttvarnarhúsi við komu til landsins. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir veit af málinu og hefur rætt við hluttakendur.

„Ég hef heyrt frá lögmanni annars aðilans og verið í sambandi við ráðuneytið vegna málsins,“ segir Þórólfur í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir framfylgd laga og reglugerða vera á ábyrgð ráðuneytisins. „Þetta úrræði er byggt á reglugerð sem ráðuneytið setur og ég tel að lögformlega þurfi ráðuneytið að svara fyrir það hvort einhverjar reglugerðir standir eða hvort sé að brjóta aðrar reglur,“ segir sóttvarnalæknir.

„Réttarstaða þessa fólks virðist vera verri en þeirra sem eru handtekin í þágu rannsóknar sakamála.“

Telur að málið fái efnislega meðferð

Ómar R Valdimarsson lögmaður fer með mál íslenskrar konu sem stefnir íslenska ríkinu fyrir að skylda hana til að dvelja á nýja sóttkvíarhótelinu gegn vilja hennar. Ómar ræddi bæði við sóttvarnalækni og lögmann heilbrigðisráðuneytisins í morgun og segist hafa fengið loforð um að málið myndi fara í réttan farveg. Heilbrigðisráðuneytið hyggst skila gögnum til héraðsdóms.

„Ég treysti því að málið fái efnislega meðferð,“ segir Ómar í samtali við Fréttablaðið. Tvennt er í boði: Annars vegar að sóttvarnalæknir krefjist staðfestingar á kröfunni og hins vegar að dómari endurskoði frelsissviptingu með vísan til atkvæði stjórnarskrárinnar.

Hvenær fáum við að vita hvort þetta fari fyrir dóm?

„Það er góð spurning. Minn umbjóðandi hefur verið frelsissviptur í tvo sólarhringa. Ef þú ert handtekinn ferðu fyrir dómara innan sólarhrings. Réttarstaða þessa fólks virðist vera verri en þeirra sem eru handtekin í þágu rannsóknar sakamála.“

165 eru á sóttkvíarhótelinu við Þórunnarstíg.

Hjón með tvö ungabörn láta reyna á reglurnar

Ómar segir framkvæmd þessarar reglugerðar ganga ekki upp. Þegar einstaklingar eru frelsissviptir eiga þeir rétt á að koma málinu fyrir dómstól og reyna þar á frelsissviptinguna. Umbjóðandi hans

„Einstaklingar sem koma hingað til landsins, þeim er mokað upp í rútu, keyrðir til Reykjavíkur og settir inn í herbergi. Í tilfelli míns umbjóðanda mótmælti hann þessu í Keflavík og mótmælti þessu í Reykjavík og það var enginn til svara. Allir yppta öxlum þegar mótmæli koma fram þó það sé skýrt hvað eigi að gera í reglugerðinni og í lögunum,“ útskýrir Ómar og bætir við að stjórnvöld hafi brugðist fólkinu.

Jón Magnússon lögmaður fer einnig með mál annarar íslenskrar konu sem kom til landsins og telur sig hæfa til að sæta sóttkví heima hjá sér en hún hafði vísað fram neikvæðu PCR prófi við komuna til landsins og reyndist einnig neikvæð í skimun við landamærin.

Ómar hefur einnig heyrt af tveimur öðrum lögmönnum sem hafa samskonar mál til skoðunar, þar á meðal hjón með tvö ungabörn. „Fjöldinn allur af fólki er að láta reyna á þetta.“

Vitum ekki fyrirfram hver mun halda sóttkví

Sóttvarnalæknir segir spurningar koma ítrekað upp um hvort löglega sé staðið að hlutum og hvort reglugerðir standist stjórnarskrá.

„Já, þetta kemur upp í hvert sinn sem við höfum sett á íþyngjandi aðgerðir, og raunar líka þegar við erum að aflétta,“ segir Þórólfur. Hann segir það að skylda alla að fara í sóttvarnarhótel sé sannarlega óvenjulega mikil aðgerð en það sé ástæða fyrir því.

,„Við erum að fá bylgjur yfir okkur þegar fólk er ekki halda þessa sóttkví og hefur verið að smita í sóttkví. Það er það sem við erum að súpa seyðið að núna. Að vísu vitum við ekki uppruna skólasmitanna sem við höfum verið að eiga við en önnur smit hafa verið afleiðingar af slíku.“

Hann segir þessa sóttvarnartilraun til að stemma stigu við því. „Ef við gerum það ekki erum við áfram í hættu að fá útbreiðslu innanland því það er alltaf einn og einn sem fylgir ekki reglum og við getum ekki vitað fyrirfram hver það er sem mun ekki halda sóttkví.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á upplýsingafundi stjórnvalda þegar hertar innanlandsaðgerðir voru tilkynntar.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson