Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hyggst ekki skila inn nýjum tillögum að breyttum sóttvarnaaðgerðum til heilbrigðisráðherra fyrr en skömmu áður en núgildandi reglugerð fellur úr gildi, 2. febrúar næstkomandi.

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Þrátt fyrir að ekki sé von á nýjum tillögum á næstu dögum frá Þórólfi hefur hann skilað inn tillögum til ráðherra um að fella niður sýnatöku fyrir einstaklinga í smitgát.

Að sögn Þórólfs er árangur núverandi aðgerða ekki sjáanlegur enn sem komið er. Reynslan af fyrri herðingum aðgerða hafi þó sýnt að árangur sjáist ekki venjulega fyrr en eftir um það bil viku.

Þórólfur segir að samkvæmt nýju spálíkani sem birt var í gær, sé spá um tvö þúsund samfélagsleg smit á dag. Samkvæmt því gætu 60 einstaklingar verið á legudeildum spítalans undir lok þessa mánaðar, neðri og efri mörk séu 46 og 77. Þá geti fjórtán verið á gjörgæslu með neðri mörkum sjö og efri 22.

Spurður hvort ekki væri tímabært að létta sóttvarnaaðgerðir í ljósi þess að aðeins 33 sjúklingar lægju á spítalanum með Covid-19 svaraði Þórólfur að nú þegar væri byrjað að létta á.

Vísaði Þórólfur til afléttinga á sýntatöku meðal annars fyrir börn og endurskilgreiningu á sóttkví. Hann sagði mikilvægt að fara ekki of hratt í að losa hömlur til að missa ekki tökin aftur.

Spurður hvort til skoðunar væri að stytta einangrun úr sjö dögum niður í fimm svaraði Þórólfur að hann hefði rætt þetta við kollega sína á fundi í morgun og að verið væri að skoða þessi mál.

Þá vísaði Þórólfur hugmyndum, sem hann sagði að hefðu verið uppi um að hann hefði aðeins samráð við sjálfan sig um sóttvarnaaðgerðir, aftur til föðurhúsanna. Hann hefði samráð við fjöldann allan af fólki á hverjum degi.