Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir faglegar forsendur fyrir því að mismuna óbólusettum einstaklingum ekki eins sterkar eftir að Omíkron-afbrigðið tók við af Delta.

Undanfarið, sem og áður, hefur borið á umræðu um svokölluð bólusetningarskírteini til að hægt sé að rýmka takmarkanir vegna Covid-19.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag var rætt við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, og voru þeir sammála um að taka ætti upp slíkt skírteini til að koma atvinnulífinu aftur á skrið.

Spurður segir Þórólfur umræðuna alls ekki nýja.

„Mín afstaða er sú að ef menn ætla að fara láta bólusetta njóta einhverra sérréttinda umfram óbólusettra þá þurfa að mínu mati að vera, í fyrsta lagi, faglegar forsendur fyrir því.“

Þórólfur segir að það yrði að vera hægt að sýna fram á að ávinningurinn af slíku sé verulegur og að lítil hætta sé á að bólusettir smiti og smitist. Þá þyrfti einnig að ræða málið út frá siðfræðilegu og pólitísku sjónarmiði.

„Það eru náttúrulega stjórnvöld sem þyrftu þá að ákveða eitthvað um þetta,“ segir Þórólfur.

Heldur áfram á sömu braut

Greint var frá því í gær að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra, segði fullt tilefni til að endurmeta núverandi sóttvarnaaðgerðir í ljósi þess hversu lágt innlagnarhlutfallið sé.

Ekki væri þörf á að bíða eftir frekari gögnum, augljóst væri að þróunin væri á réttri leið.

Spurður út í orð Áslaugar Örnu sagðist Þórólfur alltaf vera að meta gögnin.

„Við höfum gert það allan tíman og það getur vel verið að hún leggi eitthvað annað mat á það. En það er okkar hlutverk og hlutverk sóttvarnalæknis að leggja mat á gögnin og koma með tillögur til heilbrigðisráðherra um aðgerðir og ég held því áfram eins og ég hef gert fram að þessu,“ segir Þórólfur.

Ekkert minnisblað í bígerð

Þórólfur segir engar breytingar frá því í gær varðandi næsta minnisblað til heilbrigðisráðherra, hann sé ekki að vinna að slíku í augnablikinu. „Það eru bara liðnir nokkrir dagar frá því að staðan batnaði aðeins á spítalanum og aðgerðirnar tóku í gildi fyrir fimm dögum. Það er oft verið að skamma okkur fyrir það að vera alltaf að breyta og það sé enginn fyrirsjáanleiki. Þannig við erum að reyna hafa fyrirsjáanleika núna að þetta sé svona.“

Þórólfur bætir við að alltaf sé verið að reyna endurskoða og létta ýmsar aðgerðir og nefnir, sýnatökur, sóttkví og einangrun, máli sínu til stuðnings. Þá sé verið að reyna að passa að hlutirnir gerist ekki of hratt.

Spurður hvort honum þætti líklegt að ríkisstjórnin breytti takmörkunum áður en nýtt minnisblað bærist heilbrigðisráðherra svarar Þórólfur:

„Ég veit það ekki, þú verður að spyrja ríkisstjórnina af því.“

Gætu smitast síðar

Mörg dæmi eru um að einstaklingar sem dvelja með fjölskyldum sínum í einangrun og eru í viðurvist smitaðra, smitist ekki. Þórólfur segir slíkt þekkt meðal allra smitsjúkdóma.

Ekki allir séu jafn móttækilegir fyrir veirunni og að fjölmargir þættir geti skýrt það afhverju sumir eru móttækilegri fyrir smiti en aðrir. „Það er ekki hægt að gefa neitt eitt algilt svar við því.“

Þá segir Þórólfur jafnframt að það þýði þó ekki endilega að viðkomandi geti aldrei smitast, það gæti komið að því síðar.

Að minnsta kosti fimm landsliðsmenn í handbolta hafa nú greinst smitaðir af Covid-19 á Evrópumótinu. Spurður segist Þórólfur ekki hafa nein sérstök ráð fyrir íslensku handboltakappana til að reyna forðast smit.

Sömu grunnreglur giltu um þá líkt og aðra, þeir væru þó í miklu návígi hver við annan bæði innan liðsins og í keppni.