Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, segir að hann hafi ekki enn gert nýjar til­lögur um hertar tak­markanir. Hann segist enn bíða eftir því að Land­spítalinn láti vita að þau ráði ekki við að­stæður vegna mikils fjölda smita í þessari bylgju far­aldursins. Tæpur mánuður er frá því að smitum fór að fara fjölgandi.

„Þetta er sami línu­legi vöxturinn. Það er breyti­legt á milli daga en við erum í þessu sama fari,“ segir Þór­ólfur en minnst 130 smit voru greind í gær af þeim nærri fjögur þúsund sýnum sem voru tekin.

Alls eru nú 32 inni­liggjandi með smit á Land­spítalanum og af þeim eru átta á gjör­gæslu og fimm í öndunar­vél.

„Þetta er að fara upp­á­við. Það voru tveir út­skrifaðir í gær en sex lagðir inn þannig að róðurinn er greini­lega að þyngjast á spítalanum,“ segir Þór­ólfur.

Erum við komin á þann stað að þú leggir til hertar tak­markanir?

„Ég bíð eftir spítalanum. Það er enginn nema þau sem getur sagt til um það hvernig staðan er þar nema þau. Það eru margir að tjá sig um það en maður hlustar ekki á það, heldur á þau sem að þar vinna og stýra spítalanum. Ég bíð bara eftir því,“ segir Þór­ólfur.

Hann segir að þau sem hafi þurft að leggjast inn séu nokkuð al­var­lega veik. 2,5 prósent þeirra sem hafa smitast hafa þurft á spítala­inn­lögn að halda og það hlut­fall fer hækkandi að sögn Þór­ólfs.

„Þetta er al­var­leg staða finnst mér,“ segir Þór­ólfur.

Nauðsynlegt að ná óbólusettum í bólusetningu

Spurður hvort að hann telji að við eigum eftir að sjá breytingar þegar búið er að gefa fólki örvunar­skammt og hann orðinn virkur segir Þór­ólfur að það megi ekki gleyma því að um 60 prósent þeirra sem smitast eru bólu­sett og um 30 prósent óbólu­sett.

„Það þarf vissu­lega að ná þeim sem ekki eru bólu­sett í bólu­setningu. Hún er að koma í veg fyrir smit og enn betri til að koma í veg fyrir al­var­leg veikindi. Það er til mikils að vinna að fara bólu­setningu og þess vegna hvetjum við alla sem enn eru óbólu­sett að fara í hana,“ segir Þór­ólfur.

Flest þeirra sem smitast og eru bólu­sett eru bólu­sett með bólu­efni Jans­sen sem hefur verið talað um að hafi verri vörn. Þór­ólfur segir að þau sem smitast eigi það einnig sam­eigin­lega að vera ungt fólk og stór hluti þeirra hafi fengið Jans­sen bólu­efnið en í næstu viku hefst auka­bólu­setning þeirra sem fengu það bólu­efni.

Heldurðu að fólk sé pirrað yfir því að þurfa að fara aftur?

„Ég veit það ekki. Við erum búin að út­skýra fyrir fólki að við ætlum að veita þeim enn betri vörn. Það eru líka margir að fá sína þriðju sprautu. Fólk með undir­liggjandi sjúk­dóma og eldra fólk. Við erum að reyna allt sem við getum til að bæta ó­næmis­á­stand ein­stak­linga,“ segir Þór­ólfur.

Mikilvægt að missa ekki von

Hann segir að verk­efni dagsins í dag sé að ráða bug á þessari bylgju sem er yfir­standandi. Spurður hvort að hann sé að missa von þegar fjöldinn smita hefur verið svona mikill í nærri mánuð segir Þór­ólfur það á­hyggju­efni en segir að það megi ekki missa vonina.

„Ég er ekkert að missa von. Við vitum hvað þarf að gera. En ég finn að það er þreyta í mjög mörgum og menn eru orðnir leiðir á þessu en það þýðir ekki. Veiran hlustar ekkert á það. Ef það er þreyta og upp­gjöf hjá okkur fáum við meiri veikindi og vanda­mál þannig við verðum að berjast og beita þeim að­ferðum sem við höfum til að koma í veg fyrir al­var­lega veikindi og álag á heil­brigðis­kerfið,“ segir Þór­ólfur.

Hann segir að þótt svo að það sé mikil­vægt að gæta að per­sónu­legum sótt­vörnum þá hafi það sýnt sig í fyrri bylgjum að það sé ekki hægt að ná far­aldri niður nema með mjög hörðum að­gerðum.

„Það dugar ekki að höfða bara til fólks um per­sónu­legar sótt­varnir. Það hefur ekki dugað í fyrri bylgjum og það er ó­lík­legt að það dugi eitt og sér núna,“ segir Þór­ólfur.

Já, er ekki lík­legt að kallið komi bráðum frá spítalanum?

„Jú, ég get allt eins búist við því,“ segir hann að lokum.