Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir ekki hægt að tala um fimmtu bylgju Covid-19 í augnablikinu.

„Sjúkdómurinn gengur alltaf í bylgjum. Þetta er meiri útbreiðsla ég held það sé óhætt að tala um það, fleiri smit og meiri útbreiðsla. Þetta er aðallega hjá fólki sem hefur ekki fengið Covid-19,“ segir Þórólfur í samtali við Fréttablaðið.

Þórólfur segist aðspurður út í takmarkanir halda að ekki sé mikil stemning fyrir því í þjóðfélaginu. „Ég held að það sé nú kannski ekki mikil stemning almennt séð fyrir takmörkunum. Mér heyrist það nú líka á stjórnvöldum.“

Þórólfur telur ekki miklar líkur á takmörkunum á næstunni þó hann geti ekki útilokað það að eigin sögn.

Viðbúinn smá bakslagi

Greint hefur verið frá því að alvarleg veikindi vegna Covid-19 séu að aukast á ný og að aukinn fjöldi sjúklinga liggi nú inni með eða vegna Covid-19 á Landspítala.

Þórólfur segist aðspurður alveg eins hafa átt von á því að þurfa fara á fullt í Covid-19 mál áður en hann lætur af störfum sem sóttvarnalæknir í haust.

„Við erum alveg búin að tala um þetta, að við séum vonandi að komast á gott ról en erum alveg undir það búin að það komi smá bakslag. Við erum að sjá það aðeins núna, það er svo sem ekkert óvænt en auðvitað er það leiðinlegt að þurfa að standa í því fyrir alla.“

Að sögn Þórólfs er ekki mikið um endursmit í samfélaginu, þeir sem greinist nú hafi flestir ekki fengið staðfest smit áður og vonast hann til að útbreiðslan verði minni nú en hún hefur verið.

Sömu afbrigði og áður

Aðspurður um ný afbrigði segir Þórólfur afbrigðin sem nú gangi séu þau sömu og hafi verið að greinast, undirafbrigði af Omíkron og BA5 afbrigði sem hefur verið að sækja í sig veðrið hér á landi líkt og annars staðar. Einkennin séu mjög svipuð.

Þórólfur segir lykilatriði núna að gæta að persónulegum sóttvörnum sem alltaf sé verið að tönglast á, forðast mannfjölda, gæta að fjarlægð, þvo hendur, spritta og jafnvel nota grímu þar sem það á við.

„Það er mjög líklegt að Landspítalinn og heilbrigðisstofnanir fari að krefja fólk um að nota grímur, það er mjög líklegt að það verði núna á næstunni útaf þessu,“ segir Þórólfur og bætir við að eldra fólk og viðkvæmir séu hvattir til að fara í fjórðu bólusetninguna til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi.