„Það liggur ekki fyrir núna, þetta er á teikni­borðinu og ég er til­búinn með mínar til­lögur ef á þarf að halda,“ segir Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir í sam­tali við Frétta­blaðið að­spurður hvort til greina komi að herða að­gerðir hér á landi vegna kórónu­veirunnar.

Þór­ólfur segir að dagurinn í dag verði að fá að líða áður en á­kvörðun um næstu skref verða tekin.

Tuttugu kórónu­veiru­smit greindust hér á landi í gær sem er nokkuð minni fjöldi en undan­farna daga. Fara þarf aftur til 16. septem­ber til að finna færri smit á einum sólar­hring en þá voru þau á­tján.

„Þetta var kannski í takti við það sem ég vonaði, en vel að merkja þá voru tekin færri sýni í gær en í fyrra­dag og það getur vel verið að það skýri þetta,“ segir Þór­ólfur og bætir við að það geti líka verið vara­samt að túlka sterkt ein­staka sveiflur á milli daga.

Þór­ólfur bendir á að árangur af hertum að­gerðum komi oft ekki í ljós fyrr en einni til tveimur vikum eftir að gripið er til að­gerða. „Það er bara út af því hvað þessi með­göngu­tími sýkingarinnar er langur. Þetta sáum við síðasta vetur og nú er komin rúm viku frá síðustu að­gerðum. Ég vona svo sannar­lega að árangur af því fari að koma í ljós núna. En við þurfum að­eins að sjá hvað dagurinn í dag leiðir í ljós,“ segir Þór­ólfur.

Fjórir liggja nú á sjúkra­húsi með CO­VID-19 og einn er á gjör­gæslu­deild. Þór­ólfur segir að aukning al­var­legra veikinda sé á­hyggju­efni.

„Það er náttúru­lega á­hyggju­efni að sjá þennan aukna fjölda inn­lagna á Land­spítalann – og al­var­leg veikindi þar,“ segir Þór­ólfur en bætir við að þetta sé ekki ó­við­búið. Fólk fari að fá al­var­leg ein­kenni um það bil viku eftir að fyrstu ein­kenni gera vart við sig og því sé sá mögu­leiki fyrir hendi að fleiri al­var­leg til­felli komi upp næstu daga.