Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, lagði til við ríkis­stjórnina að slakað yrði á til­mælum innan­lands vegna Co­vid-19. Áfram verður hundrað manna samkomubann í landinu en slakað verður á tveggja metra reglunni innan skólaveggja þar sem lagt er til að minnsta kosti einn metri aðskilji nemendur.

„Ef að tölur næstu daga sýna á­fram að við höfum náð utan um þennan far­aldur sem er að ganga þá held ég að við getum slakað á frekar í tak­mörkunum hér innan­lands,“ sagði Þór­ólfur á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag.

Sótt­varna­læknir skilaði inn minnis­blaði til heil­brigðis­ráð­herra með sínum til­lögum í dag og segir hann nánari upplýsingar um innihald þess vera væntanlegar frá ráðuneytinu innan skamms. ,,Ég tel ekki viðeigandi að fara neitt nákvæmlega yfir það þar sem ráðuneytið sjálft er að fara yfir þetta núna."

Ekkert innanlandssmit

Ekkert inn­­lent kórónu­veiru­­­­­­smit greindist á landinu síðasta sólar­hringinn en sótt­varna­læknir sagði að enn væri beðið eftir niður­stöðum úr skimun í Vest­manna­eyjum.

Að­eins einn liggur inni á Land­spítala á gjör­gæslu en þrír voru út­skrifaðir í gær. „Þetta gefur góða von um að við séum kannski að ná böndum yfir þessa hóp­sýkingu sem við höfum verið að fást við undan­farið,“ sagði Þór­ólfur sem kvaðst vera á­nægður með þróunina.

Áfram skimað við landamærin

Hann telur þó enn brýnt að skimað verði á landamærum til að koma í veg fyrir útbreiðslu smita á landinu. „Við höfum lært að það er nóg að aðeins einn smitaður einstaklingur komi hingað til lands til að setja af stað hópsýkingu, með alvarlegum afleiðingum.“

Þrír greindust með virkt smit á landa­mærunum og er beðið eftir mót­efna­mælingu frá tveimur til við­bótar. Tekin voru sýni frá rúmlega þrjú þúsund farþegum við landamærin en alls komu 4700 til landsins í gær, sem eru óvenju margir.

Fréttin hefur verið upp­færð