Leik­stjórinn Þor­leifur Örn Arnars­son hefur gert samning við Þjóð­leik­húsið um að setja upp eina sýningu í leik­húsinu á hverju leik­ári næstu árin. Fyrsta sýning hans verður sýnd á næsta leik­ári en um er að ræða nýja gerð Þor­leifs af Rómeó og Júlíu eftir Willi­am Shakespeare.

Sneri baki við Borgar­leik­húsinu

Upp­runa­lega stóð til að sýningin yrði frum­sýnd á stóra sviðinu í Borgar­leik­húsinu á leik­árinu 2020-2021. Þor­leifur hafði orð á því í við­tali við mbl.is að hann vildi setja upp sýninguna á síðasta leik­ári Kristínar Ey­steins­dóttir, fyrr­verandi Borgar­leik­hús­stjóra, þar sem þau höfðu átt í gefandi sam­starfi í gegnum tíðina.

Líkt og al­þjóð veit á­kvað Kristín að segja starfi sínu lausu áður en samningur hennar rann út og tók Bryn­hildur Guð­jóns­dóttir ný­verið við keflinu. Í til­kynningu Þjóð­leik­hússins kemur fram að Þor­leifur muni ekki vinna við önnur leik­hús hér­lendis.

Byggt á ára­löngu sam­starfi

„Eins og ég lýsti yfir á sínum tíma þá var sam­starf mitt við leik­húsið í beinu sam­hengi við ára­langt sam­starf við Kristínu Ey­steins­dóttur,“ segir Þor­leifur í sam­tali við Frétta­blaðið. „Þegar sú at­burða­rás fer í gang að hún hættir þá þurfti að stokka upp spilin á ný.“

Þor­leifur hafði áður átt í löngu sam­tali við Magnús Geir Þórðar­son, Þjóð­leik­hús­stjóra, um komandi sam­starf þeirra á milli. Á þeim tíma þegar ljóst varð að Kristín myndi segja stöðu sinni lausri náðu Þor­leifur og Magnús sam­komu­lagi sín á milli og á­kváðu stuttu seinna að hefja sam­starf sitt fyrr en áður var ætlað.

Englar Alheimsins var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu árið 2013.

Öðru­vísi leik­hús

„Þá lá fyrir að ég myndi halda á­fram með verk­efnið sem ég hafði unnið að í tölu­verðan tíma [Rómeó og Júlíu] í Þjóð­leik­húsinu og gefa þar af leiðandi nýjum leik­hús­stjóra færi á að setja upp sína dag­skrá.“

Sýningin Rómeó og Júlía kemur þó ekki til með að taka stakka­skiptum að sögn Þor­leifs þó ein­hverjar á­herslu­breytingar verði á verkinu. „Ég vinn alltaf í nánu sam­starfi við þá lista­menn sem ég vinn með og sýningin kemur auð­vitað til með breytast að því leyti. Svo er þjóð­leik­húsið líka bara öðru­vísi leik­húsi, bæði í hlut­verki og byggingu og áru, sem mun auð­vitað hafa á­hrif.“

Lang­þráð heim­koma

Þor­leifur kemur þó til með að sakna Borgar­leik­hússins að ein­hverju leyti. „Mér þykir mjög vænt um Borgar­leik­húsið og þessi ævin­týri með Njálu og Guð blessi Ís­land voru mögnuð og of­boðs­lega gaman að vinna þarna.“

Leik­stjórinn segist þó hafa alist upp í Þjóð­leik­húsinu þar sem hann sat undir æfingum í salnum frá unga aldri. „Ég stend í fyrsta skipti á sviði þar þegar ég er sex ára gamall þannig að koma í Þjóð­leik­húsið er eins og að koma heim.“

Þá bendir Þor­leifur á að fyrsta sýning hans sem sýnd var á stóru sviði hafi ein­mitt verið í Þjóð­leik­húsinu. „Það var sýningin Englar Al­heimsins sem var lík­lega sýnd um hundrað sinnum.“

Þor­leifur kveðst hlakka til endur­komu sinnar á stóra sviðinu og sam­starfs við þann magnaða hóp sem genginn er til liðs við leik­húsið.