Í Kveiksþætti kvöldsins á RÚV var rætt við Þóri Sæmundsson sem sagt var upp störfum hjá Þjóðleikhúsinu árið 2017 fyrir að hafa sent ólögráða stúlkum kynferðislegar myndir. Þórir var fastráðinn leikari hjá Þjóðleikhúsinu á þeim tíma en sagt upp störfum eftir að upp komst um málið.
Í Kveik var velt upp hvort að einstaklingar geti átt afturkvæmt í samfélagið eftir að hafa orðið uppvísir að ámælisverðri hegðun á borð við kynferðisbrot.
Hefur sótt um hundruði starfa
Þórir segir í samtali við Kveik að hann hafi sótt um hátt í 300 störf eftir brottreksturinn frá Þjóðleikhúsinu en ekki haft erindi sem erfiði. Hann segist ekki hafa vitað að stúlkurnar hafi verið ólögráða en viðurkennir þó dómgreindarbrest.
Hálfu ári áður en að málið komst upp segir Þórir að hann hafi fengið skilaboð á Snapchat frá tveimur stelpum. Þær hafi átt í kynferðislegum samskiptum við hann og meðal annars sent honum nektarmyndir.
Þórir segir að þær hafi sagst vera 18 ára gamlar. Hann hafi bitið á agnið og sent nektarmynd til baka af sjálfum sér. Þá kom svar frá stelpunum: „Náðum þér! Við höfum heyrt að þú sért svona maður“ og lalalala eitthvað,“ segir Þórir og heldur áfram: „Mér náttúrulega dauðbrá og var rosalega hræddur því málið er bara þess eðlis þegar börn eru í hlut.“
Þórir segist hafa svarað stelpunum til baka að þær hafi ekki náð sér heldur stofnað sjálfar til samskiptanna og logið til um aldur: „Þó mér hafi brugðið þarna þá hugsaði ég að þetta færi ekkert, þetta væri ekkert mál. En svo kom á daginn að þetta varð meira mál úr þessu,“ segir Þórir.
Fær hvergi vinnu
Hann kveðst hafa misst af stórum tækifærum: „Ég fæ ekki að vinna á Íslandi, hvorki í því sem ég er þrautþjálfaður, menntaður og reyndur í, og bara frekar góður í ef ég má segja það líka, ég má ekki vinna við það. Og síðasta vinna sem ég fékk, ég gafst upp á leiklistinni í rauninni, því ég er búinn að missa af kvikmyndaverkefni og stóru sjónvarpsverkefni erlendis,“ segir Þórir.
Hann hafi því leitað annarra leiða til að afla tekna: „Frændi minn verður mér úti um atvinnu þar sem ég fæ að keyra öryrkja og fatlaða um borgina í fjóra daga áður en einhver forstjóri á sambýli í borginni hringir í Strætó og kvartar yfir því að ég sé að keyra. Hann biður yfirmanninn um að Googla og það er gert og ég er bara rekinn samdægurs,“ segir Þórir.
Hann heldur áfram: „Ég er ekki svona maður. Það að þurfa að sitja svona undir því aftur og aftur, ég var líka búinn að ákveða að ætla ekki að fella tár í þessu viðtali, en þetta er staðan sem ég er í.“