Þórir Sæ­munds­son var meðal þeirra fyrstu sem mættu á vett­vang hins nýja goss í Mera­dölum fyrr í dag. Ljós­myndari Frétta­blaðsins náði mynd­bandi af kappanum þar sem hann var víg­greifur við fyrstu sprunguna.

„Þetta er bara mjög ró­legt túr­ista­gos, til að byrja með,“ segir Þórir að­spurður hvernig er um­horfs á svæðinu. „Það rennur mikið hraun úr þessum gíg og er að verða búið fylla botninn af dalnum hérna.“

Þórir var ekki sá eini sem var á vappi og segir hann tugi hafa verið á ferð við nýja gosið.

„Ég var nú reyndar fyrstur á staðinn með Land­helgis­gæslu þyrlunni, Frétta­blaðinu og Stöð 2,“ segir Þórir hlæjandi.

„Ég var hel­víti snöggur hérna upp eftir. Ég er bara dá­leiddur hérna eins og stendur. Þetta er stór­kost­leg sjón,“ bætir Þórir við.

Hann segir nýja hraunið ekki enn vera farið að flæða yfir gamla hraunið. Þórir telur þó litlar líkur á að það verði ró­legt lengi.

„Það er bara þannig að þú kemst svona ná­lægt þessu fyrsta sólar­hringinn eða tvo en þetta mun fyllast mjög fljótt hérna og gígur myndast. Akkúrat núna er svo norðan átt svo maður er bara með vindinn í bakið á fjallinu og getur komist mjög ná­lægt þessu.“

Þórir segir geisla­virkan hita leggja frá hrauninu. „Ég er ein­hverja 70 metra frá jaðrinum núna og ég finn alveg hitann frá öllu svæðinu. Þetta er gríðar­legur hiti.“