„Formennsku minni í þessari nefnd er hér með lokið.“ Þetta segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sem sagði frá sér formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd við upphaf þingfundar í dag.

„Fátt hefur breyst síðan tillögu okkar í minnihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til að sinna eftirlitshlutverki nefndarinnar hafa einungis orðið meirihlutanum tilefni til valdníðslu og linnulausra árása. Skýrasta dæmið um þetta er hvernig meirihlutinn stendur í vegi fyrir frumkvæðisathugun á hæfi hæstvirts sjávarútvegsráðherra en hæstvirtur forsætisráðherra kallar það góða niðurstöðu,“ sagði Þórhildur Sunna.

Hún segir meirihlutann setja hættulegt fordæmi með þessu og veikja eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu.

„En til þess að réttlæta þessa aðför sína kýs meirihluti nefndarinnar að draga persónu mína sífellt niður í svaðið og notað mig sem blóraböggul. Þessi aðferðafræði, að skjóta sendiboðann, er þaulreynd þöggunar- og kúgunnar taktík. Ég mótmæli þessari aðför. Mér misbýður þetta leikrit og ég ætla ekki að taka þátt í því lengur. Meirihlutinn verður að finna sér aðrar átyllur til þess að réttlæta aðför sína að eftirlitshlutverki nefndarinnar og þingsins.“

Félagar hennar úr minnihluta nefndarinnar tóku einnig til máls á þingfundi og sögðust mundu sakna formennsku hennar í nefndinni. Þórhildur Sunna hefur verið gagnrýnin á verklag ríkisstjórnarinnar í ýmsum málum frá að hún tók við formennsku. Hún lýsti vonbrigðum með niðurstöðu meirihlutans í frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna tengsla hans við Samherja.

Meirihlutinn níðist á hennar persónu

Þórhildur Sunna tók í annað sinn til máls til þess að ítreka að hún væri að mótmæla ákveðnu athæfi og ákveðinni aðferðarfræði. Hún segir linnulaust að persóna hennar sé gerð að aðalatriði þegar nefndin reynir að sinna eftirlitshlutverki sínu.

„Ég tek ekki þátt í því. Ég býð ekki upp á þetta skálkaskjól. Ég býð ekki upp á að meirihlutinn hafi eitthvað skjól í því að níða mig og mína persónu til að forðast það að sinna eftirlitshlutverki þessarar nefndar,“ sagði hún.

„Þessi nefnd og störf hennar eru miklu mikilvægari heldur en sú sem hér stendur. Ég geng frá þessu embætti í mótmælaskyni og megi þeir sem urðu til þess hafa skömm fyrir.“