Tekist var á um gjöld vegna prests­þjónustu hjá þjóð­kirkjunni á kirkju­þingi í síðustu viku og skipu­lag starfs þeirra.

Þór­hallur Heimis­son hefur lengi gegnt em­bætti prests hér á landi en er nú prestur í Sví­þjóð þar sem hann segir kerfi sænsku kirkjunnar ó­líkt því sem hér er.

Hann ræddi málið í Bítinu á Bylgjunni í dag og er hlynntur breytingum.

„Það er allt inni­falið, prestur fær bara sín laun og organ­isti. Síðan er það þannig að menn þurfa ekki að greiða fyrir hvorki skírn né fermningar né hjóna­vígslur eða út­farir eða slíkt, nema vilji menn þjónustu út­fara­þjónustu,“ segir hann. „Að þjónusta fólk og þurfa að rukka fyrir það, það er eigin­lega fá­rán­legt.“

Á um­ræddu kirkju­þingi sagði séra Gunn­laugur Garðars­son, sem af­nema vill gjöldin í þrepum, að „við getum ekki verið í ein­hverju við­skipta­sam­bandi við guð og það á ekki að vera í sam­hengi heilags skírnar­sakra­mentis“.

Þór­hallur bendir á annað sem er ó­líkt milli landanna. Í Sví­þjóð þarf fólk að hafa sam­band við skrif­stofu kirkjunnar sem út­vegar prest og svo fram­vegis.

„Það er hvergi eins og á Ís­landi, í það minnsta á Vestur­löndum, að þú þurfir að hafa uppi á presti og organ­ista og kirkju og borga svo auka­lega fyrir, því þú ert með­limur og borgar þín með­lima­gjöld,“ segir séra Þór­hallur. Kerfið í Sví­þjóð er að hans mati „manneskju­legra“, það sé í raun vakta­vinnu­kerfi og sama sé við líði í Noregi og Dan­mörku.

Kerfið hér ali á sam­keppni milli presta um auka­gjöld, þar sem vin­sælir prestar fá meira í sinn skerf þar sem fleiri vilji fá þá til að sinna at­höfnum fyrir sig. Þór­hallur segir sænska presta á­gæt­lega launaða

Hann er hlynntur því að taka upp kerfi hér í anda þess sem er í Sví­þjóð. „Það væri gott fyrir alla, gott fyrir starfs­mennina, það væri gott fyrir prestana og organ­istana,“ segir Þór­hallur og að­spurður um það hvort að þá verði fleiri presta þörf svarar hann segir hann ekki þörf á því. „Í raun og veru er þetta bara spurning um sænskt skipu­lag.“