Þór­hallur Guð­munds­son, eða Þór­hallur „miðill“ eins og flestir þekkja hann, var í dag dæmdur í á­tján mánaða fangelsi vegna kyn­ferðis­brots gegn rúm­lega tví­tugum manni. Lands­réttur stað­festi þannig dóm Héraðs­dóms Reykja­víkur frá því í desember í fyrra.

Hann var sak­felldur fyrir að hafa fróað manninum án hans sam­þykkis þegar hann lá á nudd­bekk í heilunar­tíma á heimili Þór­halls. At­vikið átti sér stað árið 2010.

Maðurinn sagði að fyrstu tímarnir hjá Þór­halli hafi verið fínir en smám saman hafi þeir orðið furðu­legir. Þór­hallur hafi farið að snerta á honum typpið, fyrst mjög lítið en síðan hafi hann fróað honum. Maðurinn kvaðst hafa frosið við þetta og ekki sagt neitt. Hann á­kvað svo að fara aftur í tíma hjá Þór­halli til að átta sig á því hvað hefði gerst.

Fannst hann heilaþveginn

Í þeim tíma segir maðurinn Þór­hall hafa klætt sig úr að neðan og þá hafa séð hvað hann var „sveittur, graður og ó­geðs­legur í framan,“ að því sem segir í niður­stöðu dómsins. Hann fór þá út og kom ekki aftur í tíma til Þór­halls.

Maðurinn segist hafa borið traust til Þór­halls og litið á hann sem trúnaðar­vin sinn efn sæi eftir á að hann hefði „heila­þvegið“ sig. Hann lagði svo fram kæru árið 2016, ári eftir að hann hafði fyrst leitað til sál­fræðings, en hann sagðist ekki hafa verið reiðu­búinn til þess fyrr en þá.

Maðurinn og Þór­hallur eru einir til frá­sagnar um at­vikið en Þór­hallur neitaði allri sök í málinu. Í dómnum segir að brota­þolinn sé mjög trú­verðugur og að frá­sögn hans fái stoð í fram­burði for­eldra hans og syst­kina sem greindu frá því fyrir dómi að maðurinn hefði greint þeim frá at­vikinu fljót­lega. Honum hafi liðið mjög illa eftir það og lýstu fjöl­skildu­með­limir hans tíðum hringingum og smá­skila­boðum frá Þór­halli til mannsins fyrir dómi. Sjálfur vildi Þór­hallur ekki kannast við það.

Þór­hallur var því dæmdur í 18 mánaða fangelsi og til að greiða manninum 800 þúsund krónur í miska­bætur á­samt vöxtum frá 1. janúar 2011. Maðurinn fór þó fram á eina og hálfa milljón í miska­bætur. Þór­hallur greiðir einnig máls­kostnað hans.