Hæsta­réttar­dómararnir Þor­geir Ör­lygs­son og Greta Baldurs­dóttir hafa óskað lausnar frá em­bætti frá 1. septem­ber næst­komandi. Þau voru skipuð við réttinn sama dag, 1. Septem­ber 2011 og hafa því gegnt em­bætti hæsta­réttar­dómara í níu ár.

Þor­geir var kjörinn for­seti réttarins 1. janúar 2017. Hann hefði gengt því hlut­verki út næsta ár hefði hann ekki kosið að óska lausnar frá dómara­em­bætti nú.

Mikil kyn­slóða­skipti hafa orðið við réttinn á undan­förnum misserum. Markús Sigur­björns­son, sem gegnt hafði em­bætti hæsta­réttar­dómara í aldar­fjórðung, lét af em­bætti síðast­liðið haust og á sama tíma Viðar Már Matthías­son eftir tæpan ára­tug. Fyrr í vor lét Helgi I. Jóns­son af em­bætti eftir tæp átta ár í réttinum.

Ing­veldur Einars­dóttir var ein skipuð dómari í stað þeirra Markúsar og Viðars Más, vegna fækkunar dómara við Hæsta­rétt sem kveðið var á um í nýjum lögum um dóm­stóla sem sam­þykkt voru árið 2016. Í stað Helga I Jóns­sonar var Sigurður Tómas Magnús­son, þá lands­réttar­dómari, skipaður við réttinn.

Bene­dikt Boga­son var kjörinn vara­for­seti Hæsta­réttar þegar Helgi I Jóns­son hvarf úr réttinum í vor og má gera ráð fyrir því að hann verði kjörinn for­seti réttarins þegar Þor­geir lætur af em­bætti.