Greiningar­deild ríkis­lög­reglu­stjóra hefur nú gefið út skýrslu um of­beldi gegn öldruðum en rann­sóknir benda til að slíkt of­beldi sé falið, sjaldan til­kynnt og ein­kenni þess oft ekki þekkt. Niður­stöður skýrslunnar eru meðal annars að það sé tíma­bært að skoða stöðu þessa hóps eins og hún er í dag. Sambærileg skýrsla um ofbeldi gegn fötluðum var birt í febrúar.

Töl­fræði­legar upp­lýsingar um of­beldi gagn­vart eldri borgurum eru af skornum skammti þrátt fyrir að nokkrar rann­sóknir og kannanir hafi verið fram­kvæmdar á síðast­liðnum árum. Greiningar­deildin segir kannanir veita mikil­vægar vís­bendingar en nauð­syn­legt sé að skoða málið frekar.

Greiningar­deildin hefur því lagt fram til­lögur á úr­bótum, sem felast í því að bak­grunnur starfs­fólks á dvalar- og hjúkrunar­heimilum verði kannaður með til­liti til of­beldis­hegðunar, þekking lög­reglu á ein­kennum of­beldis verði efld, og þekking al­mennings á of­beldinu sé einnig efld.

Lögð er á­hersla á að lög­regla fái sér­staka þjálfun og hafi úr­ræði til að bregðast við en meðal annars er sett fram sú hug­mynd að lög­regla komi að starf­semi at­hvarfs fyrir aldraða þol­endur of­beldis.

Ofbeldi gegn öldruðum aukist í COVID

Í skýrslunni er einnig tekið til­lit til CO­VID-19 far­aldursins og heimilis­of­beldis en lög­reglan hér á landi hefur lýst yfir á­hyggjum vegna aukinna til­kynninga um heimilis­of­beldi í far­aldrinum. Til­kynningar um of­beldi gegn öldruðum í Bret­landi og Banda­ríkjunum hefur til að mynda stór­aukist á tímum CO­VID-19.

Í skýrslunni er farið yfir inn­lendar og er­lendar rann­sóknir en Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin, WHO, á­ætlar að tæp­lega 16 prósent ein­stak­linga 60 ára og eldri verði fyrir of­beldi. And­legt of­beldi var þar al­gengasta birtingar­myndin en þar á eftir kom fjár­hags­leg og efnis­leg mis­notkun, van­ræksla, líkam­legt of­beldi, og loks kyn­ferðis­legt of­beldi.

Það sé þó erfitt að meta um­fangið þar sem aldraðir skil­greina of­beldi með öðrum hætti en yngri kyn­slóðir og of­beldið sé sjaldan til­kynnt. Talið er að talan sé í raun tals­vert hærri en 16 prósent, sem sam­svarar rúm­lega 140 milljónum ein­stak­linga. Þá er talið að of­beldi muni aukast ef ekkert er gert.