Á vef Covid.is kemur nú fram að helmingur Íslendinga hafi smitast af Covid og sé með staðfest smit, eða alls 188.291 manns. Tíðni endursmita er um 2,2 prósent og því 4.155 sem hafa smitast oftar en einu sinni af Covid-19.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að enn séu að greinast um 100 smit á dag en að fáir veikist alvarlega. Þau sem geri það séu flest með undirliggjandi sjúkdóma. Hann vinnur nú að því að greina þá reynslu sem fékkst í faraldrinum og segir mikilvægt að hún verði nýtt í nýjar viðbragðsáætlanir.
„Við erum búin að tala um þetta nokkuð lengi. Það eru 50 prósent sem eru með staðfesta sýkingu en svo höfum við bent á það að miðað við mótefnamælingu sem gerð var í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu og þau sýni sem voru tekin fyrir það í apríl þá var um 50 prósent af eldri aldurshópunum búin að fá Covid og allt að 80 prósent í yngri aldurshópum,“ segir Þórólfur og að síðan þá hafi margir fengið Covid og því megi gera ráð fyrir því að hlutfallið sé miklu hærra.
Þetta er lágmarkstala. Aðeins staðfest smit
„Þetta er lágmarkstala. Aðeins staðfest smit,“ segir Þórólfur og að enn greinist á hverjum degi um 100 manns með Covid í prófi en að líklega sé fjöldinn meiri því einhverjir fara ekki í próf eða taka heimapróf.
„Það er stór hluti þjóðarinnar sem hefur fengið Covid núna. Það saxast hægt á hópinn þegar það eru um 100 á dag en það eru líklega miklu fleiri sem hafa og eru að smitast.“
Samkvæmt vef Landspítala lágu níu inni í gær vegna eða með Covid-19 á spítalanum en að sögn Þórólfs voru aðeins einn eða tveir þeirra sem voru í einangrun með virkt smit.
Vinna að nýjum viðbragðsáætlunum
Spurður hvort að hann hafi nú tíma til að skoða viðbrögð og annað sem gerðist í faraldrinum segir Þórólfur að nú fari fram svokölluð eftirárýni þar sem kafað er ofan í ýmsa þætti eins og viðbragðsáætlanir sem voru gerðar fyrir faraldur.
„Það þarf að skoða vel hvernig þessar áætlanir reyndust okkur, hvort þær reyndust vel og hvort að við höfum verið með réttar áherslur eða ekki og hvort að eitthvað hafi vantað. Það þarf að búa til viðbragðsáætlanir fyrir framtíðina. Við fáum svona faraldur aftur og það er betra að vera vel búinn og nýta þessa reynslu í viðbragðsáætlanir framtíðarinnar.“