Ingunn Lára Kristjánsdóttir
ingunnlara@frettabladid.is
Miðvikudagur 13. maí 2020
15.07 GMT

Starfshópur heilbrigðisráðherra mælir með heildarendurskoðun á stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi og að lögræðislögin verði öll tekin til endurskoðunar.

Starfshópurinn hefur nú skilað skýrslu um þörf á reglugerðum um þvingaðar meðferðir og er meginniðurstaðan að allt vald yfir öðrum einstaklingum feli í sér hættu á misnotkun. Hópurinn skrifaði drög að nýjum reglugerðum og telur brýnt að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra taki af skarið sem fyrst og gefi út reglugerð með nánari leiðbeiningum um framkvæmd þvingaðrar lyfjagjafar

Ákveðið var endurskoða lögræðislög eftir að umboðsmaður Alþingis heimsótti geðsvið Landspítala á Kleppi dagana 29.– 31. október 2018, fyrstu eftirlitsheimsókn umboðsmanns á grundvelli opcat-eftirlits. Í skýrslu Umboðsmanns, sem lesa má hér, kom fram að ekki væru fullnægjandi lagaheimildir til staðar í íslenskri löggjöf til að taka ákvarðanir gagnvart frelsissviptum einstaklingum á heilbrigðisstofnunum.

Skýrsla umboðsmanns Alþing­is á þrem­ur lokuðum geðdeild­um Land­spít­al­ans staðfesti að mann­rétt­inda­brot séu fram­in á hverj­um degi á ein­stak­ling­um með geðræn­an vanda.
Fréttablaðið/Gunnar V. Andrésson / GVA

Mannréttindabrot framin á hverjum degi

Geðhjálp hefur ítrekað bent á að mannréttindabrot séu framin á hverjum degi á einstaklingum með geðrænan vanda. Ráðherra skipaði starfshóp í lok júlí í fyrra eftir skýrslu umboðsmanns til að meta hvort þörf væri á því að setja frekari leiðbeiningar um útfærslur á þvingunarúrræðum en felast í lögum um meðferð nauðungarvistaðs manns. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um þvingaða lyfjagjöf og aðra þvingaða meðferð en slíkar reglur hafa ekki verið settar og hefur það verið harðlega gagnrýnt.

„Að beita einhvern nauðung og ganga þannig gegn vilja hans og sjálfræði er grafalvarlegt mál.“

Þvingað til að taka lyf

Fulltrúi Landssamtakanna Geðhjálpar sendi inn í lok nóvember í fyrra bókun vegna tillaga starfshóps um þvingaða meðferð. Geðhjálp segir tillöguna fela í sér margar úrbætur og mannúðlegri nálgun þessara mál en þó mætti gera betur.

„Þá stendur það eftir að gert er ráð fyrir valdbeitingu sem er óásættanlegt,“ segir í bókuninni.

Um­boðs­maður Al­þingis beindi því til Land­spítalans í fyrra að taka skipu­lag og starf­semi þriggja deilda á Kleppi til skoðunar eftir skýrslu um á­kvarðarnir sem þar eru teknar gagn­vart frelsis­sviptum ein­stak­lingum. Í ályktun Geðhjálpar vegna heimsóknaskýrslu Umboðsmanns Alþingis kemur fram:

„Vart líður sá dagur á Íslandi að fólk með geðrænan vanda sé ekki frelsissvipt, svipt ákvörðunarrétti, nauðungarvistað og lyfjum sprautað í það með valdi og í framhaldinu síðan þvingað til að taka lyf.“

„Vart líður sá dagur á Íslandi að fólk með geðrænan vanda sé ekki frelsissvipt.“
Fréttablaðið/Anton Brink

Verður að vera skýr rammi

Undirnefnd Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn pyndingum hafa sagt það nauðsynlegt er að þvinguð meðferð fari einungis fram innan skýrs ramma þar sem fram koma viðmið og tímalengd notkunar ásamt verkferlum sem snúa að eftirliti, endurskoðun og áfrýjun á slíku ákvörðunum.

Starfshópur ráðherra telur knýjandi þörf á reglum sem kveða skýrt á um hvers konar þvinganir eru heimilar í meðferð sjúklinga ef víkja þarf frá meginreglunni um sjálfsákvörðunarrétt sjúklings til að þiggja eða hafna meðferð.

„Starfshópurinn hefur skilað mjög vandaðri vinnu og tillögum sem ég hef trú á að muni setja þessi mál í skýrari farveg eins og kallað hefur verið eftir. Að beita einhvern nauðung og ganga þannig gegn vilja hans og sjálfræði er grafalvarlegt mál. Slíkt ber að forðast í lengstu lög og sé það óhjákvæmilegt þarf allt varðandi ferlið að vera skýrt, gagnsætt og rekjanlegt“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, sem tók formlega við niðurstöðum hópsins á skilafundi í ráðuneytinu.

Hægt er nálgast tillögur starfshóps um útfærslur á lögum um þvingaðar meðferðir hér á vef Stjórnarráðsins.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Mynd/Heilbrigðisráðuneytið
Athugasemdir