Heilbrigðisráðuneytið, í samvinnu við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala, hefur síðustu mánuði unnið ítarlega greiningu á lengri biðlistum og biðtíma eftir greiningu og meðferð hjá ADHD-teymi Landspítala, samkvæmt svari ráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Eins og Fréttablaðið hefur fjallað um undanfarna daga er bið eftir meðferð og greiningu hjá teyminu nú rúm þrjú og hálft ár.

Þá eru rúmlega 650 manns á biðlista.

Formaður ADHD-samtakanna sagði í samtali við blaðið í gær að biðin gæti verið lífshættuleg.

Í svari ráðuneytisins segir að ljóst sé að breytinga sé þörf og niðurstaða liggi fyrir, en hennar er þó ekki getið í svarinu.

„Verður send út tilkynning þess efnis á næstu dögum.“