„Ég var, af biturri reynslu, að bauna á stjórn­mála­menn sem tala eins og fá­bjánar,“ segir Þórður Grétars­son, leið­sögu­maður og fast­eigna­sali, í sam­tali við Frétta­blaðið. Þórður skrifaði býsna harð­orðan pistil sem hann birti á Face­book-síðu sinni í kvöld og hefur vakið at­hygli.

„Við öfga­fólk á Al­þingi og aðra kóvita segi ég eins kurteis­lega og ég get: Stein­haldið kjafti og hlýðið Víði,“ sagði Þórður meðal annars í pistlinum.

Veiktist illa sjálfur

Þórður þekkir af eigin raun hvernig það er að veikjast af CO­VID-19. „Ég smitaðist form­lega 6. eða 7. nóvember, en þá var ég búinn að vera lasinn í nokkra daga. Svo bara versnaði mér og versnaði og ég var að lokum lagður inn á Land­spítalann þar sem ég var í rúma viku,“ segir Þórður.

Hann segir að þjónustan á Land­spítalanum hafi verið til mikillar fyrir­myndar og er hann þakk­látur fyrir það. „Það er alveg frá­bært þetta kerfi okkar þegar það er ekki yfir­hlaðið,“ segir hann og bætir við að eftir­fylgnin hjá CO­VID-göngu­deildinni hafi einnig verið frá­bær.

Nefnir engin nöfn

Þórður segir að honum sárni að sjá orð sumra stjórn­mála­manna sem talað hafa mjög á­kveðið fyrir vægari að­gerðum. Hann nefnir engin nöfn í pistli sínum en segir í sam­tali við Frétta­blaðið: „Þetta eru bara stjórn­mála­menn sem eru að snapa sér at­kvæði fá­bjána.“

Þórður segir að hann sé allur að koma til eftir veikindin, hann er laus úr ein­angrun og sótt­kví. „Það eru alls­kyns ein­kenni sem fylgja þessu og fyrst og fremst mikill las­leiki. Á­stæðan fyrir því að ég var lagður inn var sú að það var mjög lítil súr­efnis­mettun í blóði. Það getur verið hættu­legt,“ segir hann.

Dauðans alvara

Í pistlinum segir hann að erfið­lega hafi gengið að rekja hvaðan smitið kom. Sjálfur hafi hann farið mjög var­lega áður en hann veiktist og passað vel upp á per­sónu­bundnar sótt­varnir. Hefur hann á orði í pistlinum að þetta hafi verið til­fallandi „úti í búð smit“ ef svo má að orði komast.

„En það kom í ljós að það smitaðist enginn í kringum mig, sem betur fer. En það virðist vera heil­mikið smit í gangi úti í sam­fé­laginu,“ segir hann en í pistlinum biðlar hann til vina og vanda­manna og segir:

„Elsku vinir, þetta er dauðans al­vara, farið var­lega.“

Kæru vinir, ég drapst ekki af þessu kvefi en ég vil bara segja ykkur að þessi fjárans Covid19 veiki er eitthvað sem þið...

Posted by Þórður Grétarsson on Fimmtudagur, 26. nóvember 2020