Þórður Már Jóhannesson lætur af störfum sem stjórnarmaður í stjórn Festar í kjölfar ásakana um kynferðisofbeldi gegn ungri konu.

Greint er frá breytingum í stjórn félagsins í tilkynningu til Kauphallarinnar en þar kemur fram að Þórður Már hafi sjálfur óskað eftir því að láta af störfum.

„Þórður Már Jóhannesson, stjórnarformaður Festi hf. óskaði á stjórnarfundi í dag eftir að láta af störfum sem stjórnarmaður í félaginu og um leið sem stjórnarformaður. Stjórn féllst á erindið. Í kjölfarið skipti stjórn með sér verkum upp á nýtt. Guðjón Reynisson var kjörinn nýr formaður stjórnar og Margrét Guðmundsdóttir varaformaður,“ segir í tilkynningunni sem má sjá hér fyrir neðan.

Mennirnir fimm farnir í leyfi

Þórður Már er einn fimm manna sem hafa verið sakaðir um kynferðisofbeldi gegn sömu konunni. Allir mennirnir sem hafa verið nefndir hafa ýmist farið í leyfi eða stigið til hliðar.

Málið tengist frásögn hinnar 24 ára gömlu Vítaliu Lazarevu í hlaðvarpi Eddu Falak, Eigin konur, fyrr í vikunni þar sem hún lýsti kynferðislegu ofbeldi sem hún sagðist hafa verið beitt af hálfu kærasta síns og þremur vinum hans í bústaðarferð.

Vítalia nafngreindi bæði Loga Bergmann og Þórð Má í færslu á Instagram í fyrra.
Fréttablaðið/Arnþór Birkisson

Sömuleiðis lýsti hún öðru aðskildu máli í golfferð og segir vin þáverandi kærasta síns, þjóðþekktan mann, hafa gengið inn á þau. Kærastinn, sem var giftur maður, hafi viljað kaupa þögn vinarins með því að láta Vítaliu veita honum kyn­ferðis­legan greiða.

Þórður hefur verið nefndur í tengslum við atvikið í sumarbústaðnum ásamt Arnari Grant, einkaþjálfara hjá World Class þáverandi kærasta Vítalíu, Hreggviði Jónssyni, stjórnarformanni og aðaleiganda Vistor,og Ara Edwald, framkvæmdastjóra Ísey útflutnings. Þjóðþekkti maðurinn í golfferðinni hafi verið Logi Bergmann.

Fréttin var uppfærð 6. janúar, klukkan 23.49.