Vitnaleiðslur í 2,3 milljarða króna skaðabótamáli Lyfjablóms gegn Þórði Má Jóhannessyni og Sólveigu Pétursdóttur, fyrir hönd dánarbús Kristins Björnssonar, hófust í dag.
Lyfjablóm ehf. hét áður Björn Hallgrímsson og var, í gegnum fjölmörg dótturfélög, stór hluthafi í Skeljungi, Árvakri, Nóa-Síríus og Sjóvá. Lyfjablóm krefst 2,3 milljarða króna í skaðabætur vegna háttsemi stjórnenda fjárfestingafélagsins Gnúps árið 2006.
Deilurnar snúa að stofnun fjárfestingarfélagsins Gnúps sem var í eigu þriggja hópa. Magnús Kristinsson átti ásamt fjölskyldu sinni 46,5% í félaginu. Félög í eigu Kristins Björnssonar og þriggja systra hans áttu 46,4% og Þórður Már 7,1%. Í málinu er deilt um hvort allir aðilar hafi lagt fjármagn í hlutfalli við eignarhlutinn.
Björns Schevings Thorsteinsson, fyrirsvarsmaður stefnenda sem er fjölskylda hans, vill meina að Þórður Már hafi stofnað eignarlaust félag, Þúfubjarg, og selt það til hluthafa Gnúps. Helmingshlutur í félaginu var selt á 800 milljónir til Magnúsar Kristinssonar og hinn helmingurinn var seldur til fjölskyldu Björns fyrir sömu upphæð en kaupverðið var greitt með peningamarkaðslánum frá Glitni fyrir alls 1600 milljónir króna sem voru síðar greidd af Gnúpi.
Þegar fjölskyldan fór að spyrja um þessar 800 milljónir sem fóru inn og út úr félaginu á sama sólarhring var þeim tilkynnt að um bankamistök hjá Glitni væri að ræða sem voru leiðrétt samdægurs. Stéfan Bergsson, endurskoðandi hjá KPMG, sagði í vitnaleiðslum í dag að hann hafi meðal annars sagt fjölskyldunni það, þar sem hann fékk slíkar skýringar frá meðal annars Kristni Björnssyni.
Sérfræðiþekking Þórðar keypt með lánsféinu
Skaðabótamálið hefur verið í dómskerfinu um þó nokkur ár núna en Landsréttur ómerkti Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2020 frá árinu áður þar sem Þórður Már og Sólveig voru sýknuð á grundvelli tómlætis- og fyrningarsjónarmiða. Dómurinn var ómerktur og vísað heim í hérað til efnislegrar meðferðar og hófst aðalmeðfer í málinu dag.
Meðal þeirra sem voru kallaðir til sem vitni í málinu voru Aðalsteinn E. Egilsson, landsréttardómari, Ragnar H. Hall, lögmaður Sólveigu Pétursdóttur í málinu, Þórður Már, Stefán Bergsson löggiltur endurskoðandi og Hermann Eyjólfsson úr slitastjórn Glitnis svo dæmi séu tekin.
Við aðalmeðferð málsins í héraði árið 2019 kom fram að Þórður Már og Helgi Arnarson, endurskoðandi Gnúps, könnuðust ekki við millifærslur upp á 1,6 milljarða króna sem áttu sér stað degi eftir að Þórður greiddi inn tveggja milljarða hlutafé sitt í félagið.
Í skýrslu fyrir dómi í dag neitaði Þórður fyrir það hafa beitt blekkingum þegar það kom að stofnun Gnúps. Með kaupunum á Þúfubjargi hafi Gnúpur öðlast sérfræðiþekkingu Þórðar Má á íslenskum fjármálamörkuðum.
Upphæðin sem slík hefði ekkert að gera með að félagið væri í raun eignarlaust heldur var verðið ákveðið manna á milli líkt og tíðkast í viðskiptum að hans sögn.
„Hér fara lögmenn ekki að munnhöggvast“
Skömmu eftir vitnisburð Þórðar þurfti Ragnar H. Hall lögmaður stefndu Sólveigar að taka af sér skikkjuna inn í dómssal og setjast í vitnastúkuna en hann var Björn Hallgrímssonar samstæðunnar um árabil.
Hiti færðist í spurningar lögmanna á meðan Helgi Friðjón Arnarson, endurskoðandi hjá KPMG, gaf vitnaskýrslu er Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Þórðar Má var ósáttur við spurningu Jón Þórs Ólasonar lögmanns Lyfjablóms og byrjuðu þeir að kalla sín á milli.
Björn L. Bergsson, héraðsdómari í málinu, endaði á berja í dómaraborðið og sagði þeim snögglega að hætta. „Hér fara lögmenn ekki að munnhöggvast,“ sagði Björn og sýndu lögmenn stillingu þar eftir á meðan vitnaleiðslur héldu áfram sem stóðu í næstum 7 klukkutíma í dag.
Aðalmeðferð heldur áfram á morgun með málflutningi lögmanna.