Vitna­leiðslur í 2,3 milljarða króna skaða­bóta­máli Lyfja­blóms gegn Þórði Má Jóhannes­syni og Sól­veigu Péturs­dóttur, fyrir hönd dánar­bús Kristins Björns­sonar, hófust í dag.

Lyfja­blóm ehf. hét áður Björn Hall­gríms­son og var, í gegnum fjöl­mörg dóttur­fé­lög, stór hlut­hafi í Skeljungi, Ár­vakri, Nóa-Síríus og Sjó­vá. Lyfja­blóm krefst 2,3 milljarða króna í skaða­bætur vegna hátt­semi stjórn­enda fjár­festinga­fé­lagsins Gnúps árið 2006.

Deilurnar snúa að stofnun fjár­festingar­fé­lagsins Gnúps sem var í eigu þriggja hópa. Magnús Kristins­son átti á­samt fjöl­skyldu sinni 46,5% í fé­laginu. Fé­lög í eigu Kristins Björns­sonar og þriggja systra hans áttu 46,4% og Þórður Már 7,1%. Í málinu er deilt um hvort allir aðilar hafi lagt fjár­magn í hlut­falli við eignar­hlutinn.

Björns Schevings Thor­steins­son, fyrir­svars­maður stefn­enda sem er fjöl­skylda hans, vill meina að Þórður Már hafi stofnað eignar­laust fé­lag, Þúfu­bjarg, og selt það til hlut­hafa Gnúps. Helmings­hlutur í fé­laginu var selt á 800 milljónir til Magnúsar Kristins­sonar og hinn helmingurinn var seldur til fjöl­skyldu Björns fyrir sömu upp­hæð en kaup­verðið var greitt með peninga­markaðs­lánum frá Glitni fyrir alls 1600 milljónir króna sem voru síðar greidd af Gnúpi.

Þegar fjöl­skyldan fór að spyrja um þessar 800 milljónir sem fóru inn og út úr fé­laginu á sama sólar­hring var þeim til­kynnt að um bankamis­tök hjá Glitni væri að ræða sem voru leið­rétt sam­dægurs. Stéfan Bergsson, endurskoðandi hjá KPMG, sagði í vitnaleiðslum í dag að hann hafi meðal annars sagt fjölskyldunni það, þar sem hann fékk slíkar skýringar frá meðal annars Kristni Björnssyni.

Sérfræðiþekking Þórðar keypt með lánsféinu

Skaða­bóta­málið hefur verið í dóms­kerfinu um þó nokkur ár núna en Lands­réttur ó­merkti Héraðs­dóms Reykja­víkur árið 2020 frá árinu áður þar sem Þórður Már og Sól­veig voru sýknuð á grund­velli tóm­lætis- og fyrningar­sjónar­miða. Dómurinn var ó­merktur og vísað heim í hérað til efnis­legrar með­ferðar og hófst aðal­með­fer í málinu dag.

Meðal þeirra sem voru kallaðir til sem vitni í málinu voru Aðal­steinn E. Egils­son, lands­réttar­dómari, Ragnar H. Hall, lög­maður Sól­veigu Péturs­dóttur í málinu, Þórður Már, Stefán Bergs­son lög­giltur endur­skoðandi og Her­mann Eyjólfs­son úr slita­stjórn Glitnis svo dæmi séu tekin.

Við aðal­með­ferð máls­ins í héraði árið 2019 kom fram að Þórður Már og Helgi Arn­ar­­son, end­ur­­skoðandi Gnúps, könnuðust ekki við milli­­­færsl­ur upp á 1,6 millj­arða króna sem áttu sér stað degi eft­ir að Þórður greiddi inn tveggja millj­arða hluta­­fé sitt í fé­lagið.

Í skýrslu fyrir dómi í dag neitaði Þórður fyrir það hafa beitt blekkingum þegar það kom að stofnun Gnúps. Með kaupunum á Þúfu­bjargi hafi Gnúpur öðlast sér­fræði­þekkingu Þórðar Má á ís­lenskum fjár­mála­mörkuðum.

Upp­hæðin sem slík hefði ekkert að gera með að fé­lagið væri í raun eignar­laust heldur var verðið á­kveðið manna á milli líkt og tíðkast í við­skiptum að hans sögn.

„Hér fara lög­menn ekki að munn­höggvast“

Skömmu eftir vitnis­burð Þórðar þurfti Ragnar H. Hall lög­maður stefndu Sól­veigar að taka af sér skikkjuna inn í dóms­sal og setjast í vitna­stúkuna en hann var Björn Hall­gríms­sonar sam­stæðunnar um ára­bil.

Hiti færðist í spurningar lög­manna á meðan Helgi Frið­jón Arnar­son, endur­skoðandi hjá KPMG, gaf vitna­skýrslu er Arnar Þór Stefáns­son, lög­maður Þórðar Má var ó­sáttur við spurningu Jón Þórs Óla­sonar lög­manns Lyfja­blóms og byrjuðu þeir að kalla sín á milli.

Björn L. Bergs­son, héraðs­dómari í málinu, endaði á berja í dómara­borðið og sagði þeim snögg­lega að hætta. „Hér fara lög­menn ekki að munn­höggvast,“ sagði Björn og sýndu lög­menn stillingu þar eftir á meðan vitna­leiðslur héldu á­fram sem stóðu í næstum 7 klukku­tíma í dag.

Aðal­með­ferð heldur á­fram á morgun með mál­flutningi lög­manna.