Þórdís Sif Sigurjónsdóttir verður ekki ráðin aftur sem sveitarstjóri Borgarbyggðar. Það tilkynnir hún um á Facebook en nýr meirihluti Framsóknarflokks tekur við af núverandi meirihluta í kjölfar kosninganna fyrir tæpri viku en flokkurinn fékk meira en 50 prósent allra atkvæða.
„Ég hefði að sjálfsögðu kosið að halda áfram með þá vegferð sem við erum á og halda áfram þeim umbótum sem hafnar eru og þeirri uppbyggingu sem við höfum hafið vinnu við,“ segir Þórdís og að tvö ár hafi ekki verið nóg til að innleiða þær breytingar sem hún hefur unnið að frá því að hún tók við.
„Róm var ekki byggð á einum degi,“ segir hún og fer yfir það sem hefur áunnist frá vorinu 2020 en þá hafði sveitarfélagið fengið neikvæða úttekt á stjórnsýslu þess.
„Hjá Borgarbyggð starfar einstaklega hæft starfsfólk. Þau eru með metnað fyrir sínum störfum, þau eru með metnað til að gera enn betur í dag en í gær og metnað til að vinna sameiginlega að þeim markmiðum að gera Borgarbyggð að betra samfélagi fyrir íbúa. Samheldnin hefur aukist meðal starfsfólk, starfsfólk allra stofnanna er starfsfólk Borgarbyggðar og við viljum öll gera okkar til að sveitarfélagið vaxi og dafni,“ segir Þórdís og að hún muni þegar starfi hennar lýkur leggjast undir feld.