Styr hefur staðið um tíst Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra frá því í gær þar sem hún vitnaði til orða bandaríska mannréttindafrömuðarins Martin Luther King Jr.
Netverjar voru margir hverjir afar ósáttir við tístið og fékk hún yfir sig holskeflu athugasemda á Twitter. Margir túlkuðu það sem svo að Þórdís Kolbrún væri vitnaði til orða King Jr. í tengslum við sóttvarnaaðgerðir sem hún hefur gagnrýnt áður.
Í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans segir Þórdís Kolbrún að tístið hafi verið „hugsað í algjörri einlægni sem tákn um virðingu fyrir manni sem er sameiginleg táknmynd margs þess besta í fari mannkyns; hugrekkis, réttsýni og baráttuþreki fyrir mannréttindum.“
Enn fremur segir ráðherrann að í gær á afmælisdegi King Jr. og frídegi í Bandaríkjunum af því tilefni hafi verið „gott tilefni til þess að minna okkur á að orð hans og skilaboð eiga enn brýnt erindi við heiminn.“
Hún hafnar þeirri túlkun að tístið hafi vísað til sóttvarnaaðgerða.
„Í umræðum víða um heim hefur hins vegar gætt tilhneigingar til þess að takmarka frelsi fólks til tjáningar og frjálsrar hugsunar. Ég tel tilefni til að við minnum okkur á mikilvægi þess að andstæðar skoðanir fái að heyrast, og ég tek fram að mér er jafnumhugað um tjáningarfrelsi þeirra sem eru mér fullkomlega ósammála og hinna sem eru mér sammála,“ segir Þórdís Kolbrún enn fremur í svarinu til Kjarnans.