„Ég átti alveg von á að lögreglan kæmi með yfirlýsingu enda er hún komin í bullandi vörn að mínu mati,“ segir Þórdís Björk Sigurþórsdóttir í samtali við Fréttablaðið.
Þórdís var afar ósátt með afskipti lögreglu á föstudagskvöld en nokkrir vinir sonar hennar, sem stunda nám í Verslunarskóla Íslands, höfðu komið saman heima hjá henni í Hafnarfirði til að vera viðstaddir stafræna kvöldvöku hjá skólanum. Lögreglan knúði dyra um 23:30, nokkru eftir að kvöldvökunni lauk.
Getur ekki staðist
Lögreglan sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fram kom að Þórdís hafi verið lítt samvinnuþýð og hreytt fúkyrðum í lögreglumenn á vettvangi. Meðan á því stóð hafi um 20 ungmenni, öll grímulaus, sést yfirgefa húsið. Þórdís segir að þetta geti ekki staðist því fjöldinn hafi verið um tíu manns.
„Lögregla getur ekki hafa séð tuttugu ungmenni koma út. Hún veit ekkert hvernig samkomunni var háttað inni hjá mér því hún fékk ekkert að koma inn,“ segir Þórdís sem segir að lögregla hafi brotið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar þar sem meðal annars er kveðið á um réttindi er varða heimilið.
Lögreglumaður hafi sett fótinn inn fyrir þröskuldinn og komið í veg fyrir að hún lokaði dyrunum. „Þar með braut hún stjórnarskrárákvæði um friðhelgi heimilisins,“ segir hún.
Vildi upptökur og afrit af skýrslunni
Þórdís segist hafa óskað eftir upplýsingum frá lögreglu í dag en fengið þau skilaboð að hún þyrfti að fá sér lögmann.
„Ég óskaði eftir afriti af lögregluskýrslunni og upptökum sem ég á rétt á að fá. Þá sögðu þeir nei, það væri verið að rannsaka málið og ég yrði að fá mér lögmann til að fá þessi gögn. Ég þarf engan lögmann til að óska eftir þessum gögnum,“ segir Þórdís sem var sjálf með myndavél og náði meðal annars meðfylgjandi mynd þar sem lögreglumaður virðist kíkja inn um glugga.
Í yfirlýsingu lögreglu í dag kom fram að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telji að lögreglumenn hafi gætt meðalhófs í aðgerðum. Um meintar gluggagægjur sagði lögregla að lögreglumaður hafi horft í gegnum glugga á framhlið hússins til að telja ungmenni sem verið var að koma út í gegnum dyr baka til.
Ætlar að fara í lögfræði
Aðspurð hvort hún óttist að vera kærð vegna málsins segist Þórdís ekki óttast það sérstaklega. Hún ætlar þó að fá sér lögmann og fá þau gögn afhent sem hún á rétt á. „Sönnunarbyrðin er á þeim og reglurnar eru þannig að það miðast við 10 manns í hverju rými. Við búum í tveggja hæða húsi og það voru til dæmis þrír strákar í tölvuleik inni í einu herberginu. Maður veit þó aldrei, þetta eru skrýtnir tímar.“
Þórdís segir að sonur hennar, sem er nemandi í Verslunarskólanum, sé ákveðinn í að verða lögfræðingur eftir atvikið á föstudagskvöld. „Honum fannst þetta ganga svo langt að hann sagðist vera búinn að ákveða að fara í lögfræði,“ segir Þórdís og bætir við að hún reyni að finna eitthvað jákvætt við þessa reynslu.