„Ég átti alveg von á að lög­reglan kæmi með yfir­lýsingu enda er hún komin í bullandi vörn að mínu mati,“ segir Þór­dís Björk Sigur­þórs­dóttir í sam­tali við Frétta­blaðið.

Þór­dís var afar ó­sátt með af­skipti lög­reglu á föstu­dags­kvöld en nokkrir vinir sonar hennar, sem stunda nám í Verslunar­skóla Ís­lands, höfðu komið saman heima hjá henni í Hafnar­firði til að vera við­staddir staf­ræna kvöld­vöku hjá skólanum. Lög­reglan knúði dyra um 23:30, nokkru eftir að kvöld­vökunni lauk.

Getur ekki staðist

Lög­reglan sendi frá sér yfir­lýsingu í dag þar sem fram kom að Þór­dís hafi verið lítt sam­vinnu­þýð og hreytt fúk­yrðum í lög­reglu­menn á vett­vangi. Meðan á því stóð hafi um 20 ung­menni, öll grímu­laus, sést yfir­gefa húsið. Þór­dís segir að þetta geti ekki staðist því fjöldinn hafi verið um tíu manns.

„Lög­regla getur ekki hafa séð tuttugu ung­menni koma út. Hún veit ekkert hvernig sam­komunni var háttað inni hjá mér því hún fékk ekkert að koma inn,“ segir Þór­dís sem segir að lög­regla hafi brotið gegn á­kvæðum stjórnar­skrárinnar þar sem meðal annars er kveðið á um réttindi er varða heimilið.

Lög­reglu­maður hafi sett fótinn inn fyrir þröskuldinn og komið í veg fyrir að hún lokaði dyrunum. „Þar með braut hún stjórnar­skrár­á­kvæði um frið­helgi heimilisins,“ segir hún.


Vildi upptökur og afrit af skýrslunni

Þór­dís segist hafa óskað eftir upp­lýsingum frá lög­reglu í dag en fengið þau skila­boð að hún þyrfti að fá sér lög­mann.

„Ég óskaði eftir af­riti af lög­reglu­skýrslunni og upp­tökum sem ég á rétt á að fá. Þá sögðu þeir nei, það væri verið að rann­saka málið og ég yrði að fá mér lög­mann til að fá þessi gögn. Ég þarf engan lög­mann til að óska eftir þessum gögnum,“ segir Þór­dís sem var sjálf með mynda­vél og náði meðal annars með­fylgjandi mynd þar sem lög­reglu­maður virðist kíkja inn um glugga.

Í yfir­lýsingu lög­reglu í dag kom fram að Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu telji að lög­reglu­menn hafi gætt meðal­hófs í að­gerðum. Um meintar glugga­gægjur sagði lög­regla að lög­reglu­maður hafi horft í gegnum glugga á fram­hlið hússins til að telja ung­menni sem verið var að koma út í gegnum dyr baka til.

Ætlar að fara í lögfræði

Að­spurð hvort hún óttist að vera kærð vegna málsins segist Þór­dís ekki óttast það sér­stak­lega. Hún ætlar þó að fá sér lög­mann og fá þau gögn af­hent sem hún á rétt á. „Sönnunar­byrðin er á þeim og reglurnar eru þannig að það miðast við 10 manns í hverju rými. Við búum í tveggja hæða húsi og það voru til dæmis þrír strákar í tölvu­leik inni í einu her­berginu. Maður veit þó aldrei, þetta eru skrýtnir tímar.“

Þór­dís segir að sonur hennar, sem er nemandi í Verslunar­skólanum, sé á­kveðinn í að verða lög­fræðingur eftir at­vikið á föstu­dags­kvöld. „Honum fannst þetta ganga svo langt að hann sagðist vera búinn að á­kveða að fara í lög­fræði,“ segir Þór­dís og bætir við að hún reyni að finna eitt­hvað já­kvætt við þessa reynslu.