Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, gefur lítið fyrir mynd sem hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum undanfarinn sólarhring af henni og Björgólfi Jóhannessyni, starfandi forstjóra Samherja, á Akureyrarflugvelli. Myndinni, sem birtist fyrst á DV.is, var dreift á Facebook af Jæja-hópnum undir yfirskriftinni „Samstaða flokksins með Samherja“. Þórdís segir í samtali við Fréttablaðið að myndin sé ekki óheppileg enda hafi aðeins verið um tilviljun að ræða; hún hafi fengið sér sæti við borð og hann sest við hlið sér. Hún segir málefni Samherja ekki hafa borið á góma.
„Við ræddum það að sjálfsögðu ekki,“ segir Þórdís Kolbrún.
Vinalegt spjall
„Ég var að bíða eftir fluginu mínu. Ég fékk mér sæti í flugstöð og las tölvupóstana mína. Ég veit ekki hvað annað er um það að að segja,“ segir Þórdís. Hún segist vissulega þekkja Björgólf enda unnið með honum í Stjórnstöð ferðamála undanfarin þrjú ár en spjall þeirra hafi einungis verið á vinalegum nótum.
„Ég keypti mér sódavatn og settist við þetta borð á meðan ég var að bíða eftir mínu flugi. Við ræddum meðal annars jólafrí og barnabörnin hans og börnin mín.“ Hún segir myndina ekki óheppilega, enda hafi þau ekki átt neinn fund og hún hafi ekki verið að stilla sér upp með honum.
Voru í sama flugi
Þórdís var á leið heim eftir ferð ráðherra ríkisstjórnarinnar um Norðurland, þar sem þeir skoðuðu ástandið eftir óveðrið í seinustu viku og hittu ýmsa aðila. Aðspurð segist Þórdís ekki vita hvert Björgólfur var nákvæmlega að fara.
„Hann var allavega í sama flugi og ég. Ég veit ekki hvert hann var svo að fara.“