Ekki er hægt að sópa „óþolandi bakreikning Sorpu“ undir teppið að sögn Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, oddvita Viðreisnar í borgarstjórn. Um er að ræða bakreikning upp á tæplega 1,4 milljarð sem tilkynntur var á stjórnarfundi Sorpu í gær. Þórdís segir óásættanlegt að sveitarfélögin sitji uppi með háan bakreikning vegna mistaka og vanáætlana sem ekki eigi að útskýra frekar.

„Svona lagað á ekki að geta gerst en ég er því miður ekki hissa. Kerfið sem sveitarfélög um allt land hafa komið sér upp, svokölluð byggðasamlög, eru að mínu mati óskiljanlegt fyrirbæri sem klífur ábyrgð og ákvarðanatöku í sundur,“ segir Þórdís í færslu á Facebook síðu sinni.

Hlutverk Sorpu að sýna ábyrgð

Ákvarðanataka og framkvæmd eigi að taka mið af hlutverki, ábyrgð og umboði að sögn Þórdísar sem telur það eiga sérstaklega við hjá Sorpu. „Mistök geta gerst en þegar um er að ræða fjárhæðir eins og þessa þarf að staldra við og leita skýringa. Svo er hægt að meta næstu skref.“

Þórdís telur útsvarsgreiðendur eiga það skilið að álíka mistök séu tekin alvarlega og tryggt sé að slíkt komi ekki fyrir aftur. „Nú fá sveitarfélögin háan bakreikning sem á að fjármagna með lántöku og tryggingu sveitarfélaga. Á sama tíma fjárfestum við í skólum. leikskólum, íþróttamannvirkjum og samgöngum en nú er skuldastaða sveitarfélaganna sett í uppnám og framkvæmdaaðili setur ábyrgðina yfir á sveitarfélögin.“

Langvarandi fótspor á fjármálin

Ekki sé hægt að leiða mistök af slíkri stærðargráðu fram hjá sér að mati Þórdísar sem telur að reikningurinn muni setja langvarandi fótspor á fjármál sveitarfélaganna. Hún segir að til að hægt sé að lækka skuldir borgarinnar og auka fjárfestingu í grunnþjónustu verði að vera hægt að treysta fyrirtækjum til að vinna vinnuna sína vel. „Að það sé ekki hægt er hreinlega ólíðandi.“