Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, ber af öðrum borgarfulltrúum í launakapphlaupi þeirra. Laun Þórdísar Lóu eru 1.742.208 krónur samkvæmt nýbirtum upplýsingum á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Munurinn er einna helst sá að Þórdís Lóa situr í gjöfulum stjórnarsætum fyrir hönd Reykjavíkurborgar, meðal annars hjá Faxaflóahöfnum og Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar. Alls nema greiðslurnar fyrir stjórnarseturnar 426.720 krónum á mánuði en aðrir borgarfulltrúar eru varla hálfdrættingar á við Þórdísi Lóu.

Þá fær hún einnig greitt sérstakt álag sem formaður borgarráðs. Hagur Pawel Bartoszek, nýkjörins forseta borgarstjórnar, vænkast talsvert en hann er næst launahæsti borgarfulltrúinn með 1.475.296 krónur. Þau eiga þó ekki roð í Dag B. Eggertsson, borgarstjóra. Laun hans eru 2.198.732 krónur á mánuði sem skiptast í grunnlaun upp á 1.976.025 krónur og greiðslu fyrir stjórnarformennsku í Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu uppá 222.707 krónur.

Marta fékk væna dúsu.

Tvisvar á ári endureiknar Reykjavíkurborg laun borgarfulltrúa í takt við launavísitölu og birtir upplýsingarnar á heimasíðu sinni. Slík uppfærsla átti sér stað í lok síðustu viku. Grunnlaun borgarfulltrúar hækkuðu þá um 2,8 prósent og eru í dag 762.995 krónur. Þá hækkaði greiðsla starfskostnaðar um sölu prósentutölu og er í dag 55.093 krónur.

Að auki bætist margskonar álag við laun borgarfulltrúa. Álag fyrir formennsku í borgarstjórnarflokki, formennsku í fastanefndum, forsæti í borgarstjórn og setu í borgarráði. Að auki er svonefnt þriggja nefnda álag greitt en til þess að eiga rétt á slíkum greiðslum þurfa borgarfulltrúar að sitja í þremur fastanefndum. Allir borgarfulltrúar þiggja einhverskonar aukagreiðslur af þessum toga sem hækka laun þeirra verulega.

Þá virðist ákveðin tekjuvernd eiga sér stað meðal borgarfulltrúa. Þannig vék Marta Guðjónsdóttir sem aðalmaður úr borgarráði í sumar og tók sæti varamanns í ráðinu. Það þýddi tekjutap upp á um 150 þúsund krónur á mánuði.

Í síðustu viku var hún síðan kjörin sem fulltrúi í hverfaráð Kjalarness þrátt fyrir að vera búsett í Skerjafirði. Rétt er þó að taka fram að Marta þekkir Kjalarnesið afar vel. Þar með uppfyllti hún skilyrði um títtnefnt þriggja nefnda álag sem skilar henni aukalega 190 þúsund krónum á mánuði. Laun hennar hækkuðu því um rúmar 40 þúsund krónur.