Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, segir það ekki koma til greina að Íslendingar þurfi að búa við áframhaldandi skerðingu á réttindum og athafnafrelsi vegna mögulegs aukins álags á heilbrigðiskerfið.
„Nú er í þá átt að koma samfélaginu í eðlilegt horf, jafnvel þótt ekki sé hægt að tryggja að því felist engin áhætta,“ segir Þórdís Kolbrún í pistli í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Hún segir þar að það hafi verið gleðilegt að fylgjast með frændþjóðum okkar koma lífinu aftur í eðlilegt horf en öll hin norrænu ríkin hafa aflétt nánast öllum innlendum sóttvarnaaðgerðum.
Þórdís Kolbrún segir í greininni að stjórnvöld þurfi að vega og meta heildarhagsmuni sóttvarnaraðgerða og spyr hvers virði aðgerðirnar eru þegar ýmsar skerðingar á lífsgæðum fólks eru enn við lýði.
„Allt eru þetta fórnir og frávik frá þeim mannréttindum, frelsi og lífsgleði sem við viljum að einkenni okkar góða samfélag,“ segir hún í greininni.
Það kemur hins vegar ekki til greina í mínum huga að Íslendingar þurfi að sætta sig við að álag á heilbrigðiskerfið, af ýmsum ástæðum, sé notað sem réttlæting fyrir viðvarandi skerðingu á réttindum og athafnafrelsi
Hún segir að það liggi fyrir að hingað muni koma inflúensa og aðrar pestir sem muni líklega vera skæðari en áður vegna faraldursins í fyrra og að það sé sjálfsagt mál að fólk gæti að almennum sóttvörnum og heilbrigðum lífsstíl.
„Það kemur hins vegar ekki til greina í mínum huga að Íslendingar þurfi að sætta sig við að álag á heilbrigðiskerfið, af ýmsum ástæðum, sé notað sem réttlæting fyrir viðvarandi skerðingu á réttindum og athafnafrelsi,“ segir Þórdís Kolbrún í greininni.
Hún segir að þótt svo að sóttvarnarsjónarmið séu mikilvæg þá sé það skylda stjórnvalda að standa vörð um almenn lífsgæði, efnahagslíf og menningu.
„Til þess þurfum við að hafa hugrekki til þess að lifa með þeim áhættum sem óhjákvæmilegar eru í mannlegu samfélagi. Stjórnvöld þurftu í einhverjum skilningi að fá frelsi fólks að láni. Það kom hins vegar aldrei annað til greina en að skila því aftur til réttmætra handhafa, fólksins sjálfs,“ segir Þórdís Kolbrún.