Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að sækjast eftir endurkjöri á landsfundi flokksins í nóvember.

Greint er frá þessu á Mbl.is og vitnað í grein Þórdísar sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins á morgun.

Þórdís var kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins með 95,7 prósent atkvæða í mars 2018. Þá var Bjarni Benediktsson endurkjörinn formaður og Áslaug Arna kjörin ritari.

Bjarni ætlar sömuleiðis að sækjast áfram eftir því að vera formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins í nóvember. Hann tók við formennsku í flokknum vorið 2009 og er því kominn á fjórtánda ár á formannsferli sínum.